Píratar þyrftu að gera málamiðlanir

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. mbl.is/Eggert

Erfiðlega gæti gengið að koma saman starfshæfri ríkisstjórn að loknum þingkosningunum í haust. Þetta segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í samtali við fréttastofu Channel 4 í Bretlandi. Spyrillinn spurði um fylgisaukningu Pírata og sagði Guðni að það ætti eftir að koma í ljós hvernig þeim gengi að mynda mögulega ríkisstjórn með öðrum flokkum.

Til að mynda ríkisstjórn þyrfti að gera málamiðlanir og það gæti reynst erfitt fyrir flokk eins og Pírata sem legðu áherslu á hugsjónir. Spurður hvort hann myndi fagna því ef Píratar veittu bandaríska uppljóstraranum Edward Snowden íslenskan ríkisborgararétt sagði Guðni það mál gott dæmi um mál þar sem gæti reynst erfitt að semja við aðra flokka.

Spurður hvort Ísland væri ekki fyrirmynd fyrir ýmsa aðra með því meðal annars að dæma bankamenn í fangelsi og neyða forsætisráðherra til að segja af sér sagði Guðni, sem er í Bretlandi í opinberri heimsókn, að Íslendingar væru ekki endilega að velta því fyrir sér heldur að gera það sem væri rétt. Ef það væri öðrum fyrirmynd væri það bara þannig.

Forsetinn var einnig spurður að því hvort hann vildi að Ísland gengi í Evrópusambandið. Svaraði hann því þannig að hann vildi sjá hvernig hlutirnir þróuðust. Sjávarútvegurinn skipti Íslendinga sérstaklega miklu máli. Ekki aðeins efnahagslega heldur einnig sálfræðilega. Íslendingum þætti þeir vera sér á báti og þeir sem vildu í sambandið yrðu að komast framhjá því.

Spurður um EES-samninginn sagði hann að litið hafi verið svo á þegar samið hafi verið um samninginn á sínum tíma að með honum hefði fengist aðgangur að markaði Evrópusambandsins án þess að þurfa að ganga í sambandið. Margir væru enn þeirrar skoðunar. Samningurinn væri hugsanlega eitthvað sem Bretar ættu að skoða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert