„Meira en ég get sætt mig við“

Jóhannes Gunnar Bjarnason.
Jóhannes Gunnar Bjarnason. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Ég tel ekki að æðstu valdamenn þjóðarinnar eigi að vera með óhreint mjöl í pokahorninu. Þeir sem bjóða sig fram í þessi æðstu valdaembætti þeir verða að geta sýnt fram á það að hafa algerlega hreinan skjöld gagnvart peningamálum sínum og þetta Tortóla-dæmi hans, það er bara meira en ég get sætt mig við.“

Þetta segir Jóhannes Gunnar Bjarnason, fyrrverandi oddviti Framsóknarflokksins í bæjarstjórn Akureyrar, í samtali við mbl.is en hann birti í dag færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann lýsir því yfir að hann ætli að segja sig úr Framsóknarflokknum eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, fékk afgerandi kosningu í fyrsta sæti framboðslista framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi.

Frétt mbl.is: Fyrrverandi oddviti Framsóknar á Akureyri vill Sigmund burt

Jóhannes segir að ljóst sé að yfir 70% framsóknarmanna í kjördæminu séu honum ósammála í þessum efnum og að hann eigi ekki pólitíska samleið með þeim. Niðurstaðan sé risastórt skref afturábak fyrir Framsóknarflokkinn. Jóhannes segist aðspurður ekki bjartsýnn á gengi flokksins í komandi þingkosningum með Sigmund Davíð í brúnni. Flokksþingið sé að vísu eftir og ekki liggi fyrir hvað eigi eftir að gerast þar.

„Auðvitað vona ég heitt og innilega að eitthvað breytist þar. En með Sigmund sem formann hef ég sagt það lengi að það er útilokað að flokkurinn nái árangri í kosningum. Það er bara útilokað,“ segir Jóhannes. Fólk hafi ekki mótmælt á Austurvelli fyrr á þessu ári að ástæðulausu. „Þetta er bara meira en fólk sættir sig við.“

Jóhannes segist ekki bjartsýnn á að Sigmundur Davíð nái ekki kjöri sem formaður Framsóknarflokksins á flokksþinginu. Eftir sem áður yrði hann oddviti framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi. Eina atburðarásin sem gæti breytt því væri að hann tapaði í formannskosningu og léti í kjölfarið af þingmennsku.

„En ég er ekki bjartsýnn á það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert