Óljóst hvenær forsætisráðherra tilkynnir þingrofið

Alþingishúsið.
Alþingishúsið. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ekki liggur enn fyrir hvenær Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra tilkynnir um þingrof og kosningar til Alþingis, sem áformaðar eru 29. október næstkomandi.

Samkvæmt 24. grein stjórnarskrár lýðveldisins skulu alþingiskosningar fara fram innan 45 daga frá því að þingrof er tilkynnt. Því var fyrst hægt að tilkynna um þingrof fimmtudaginn 15. september síðastliðinn. Það gerðist ekki, enda stóðu yfir nefndardagar á Alþingi og engir þingfundir á dagskrá. Aukinheldur var forsætisráðherrann nýkominn frá útlöndum og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands staddur á Englandi. Hann kom til landsins í fyrradag.

Forsetinn gefur út forsetabréf um þingrof og kosningar að tillögu forsætisráðherra, sem síðan les það upp á Alþingi. Næsti þingfundur verður mánudaginn 19. september en ekki liggur ljóst fyrir hvort tilkynnt verður um þingrofið þann dag eða síðar í vikunni.

Alþingi getur starfað áfram þótt þingrof hafi verið tilkynnt enda halda alþingismenn umboði sínu til kjördags, sbr. 24. gr. stjórnarskrárinnar. Forsætisnefnd þingsins hefur ákveðið að yfirstandandi Alþingi, 145. löggjafarþingið, standi til fimmtudagsins 29. september næstkomandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert