„Vísbending um það sem koma skal“

Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var bara glæsilegt og ljóst að það er alveg óumdeilt hver er leiðtogi. Þrátt fyrir að mikið hafi dunið á honum undanfarið þá er alveg ljóst að hann er óskoraður leiðtogi.

Þetta segir Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í samtali við mbl.is inntur eftir viðbrögðum við kosningu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, í fyrsta sæti á framboðslista flokksins í Norðausturkjördæmi. Kosning Sigmundar var með miklum yfirburðum en hann hlaut yfir 70% atkvæða.

Frétt mbl.is: Sigmundur með afgerandi forystu

„Ég var alveg sannfærður um að hann myndi vinna þetta en það er mjög ánægjulegt að sjá hvað það er með afgerandi hætti,“ segir Gunnar Bragi. Sigurinn sé sérstaklega ánægjulegur fyrir Sigmund í ljósi þeirra árásar sem hann hafi mátt sæta undanfarin misseri. Allt hafi bókstaflega verið reynt til þess að vega að honum. Jafnvel efast um geðheilsu hans.

„Þannig að þetta er bara mjög glæsilegur sigur og einfaldlega vísbending um það sem koma skal,“ segir Gunnar Bragi ennfremur. Hann hafi stutt Sigmund Davíð til þessa og muni gera það áfram. „Ég einfaldlega trúi því að hann sé besti valkosturinn fyrir flokkinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert