Framboðslistinn ákveðinn í dag

Páll Magnússon varð í efsta sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í …
Páll Magnússon varð í efsta sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi. mbl.is/RAX

Framboðslisti sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi verður endanlega ákveðinn á fundi kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins sem fram fer á Selfossi klukkan 15:00 í dag. Þetta staðfestir Grímur Gíslason, formaður stjórnar kjördæmisráðsins, í samtali við mbl.is.

Prófkjör sjálfstæðismanna í kjördæminu fór fram um síðustu helgi og urðu karlmenn í þremur efstu sætunum. Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri, náði kjöri í fyrsta sætið og þingmennirnir Ásmundur Friðriksson og Vilhjálmur Árnason annað og þriðja sætið.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, lenti í fjórða sæti og Unnur Brá Konráðsdóttir alþingismaður í því fimmta. Ragnheiður tilkynnti í kjölfarið að hún ætlaði ekki að taka sæti á listanum og þar með að segja skilið við stjórnmálin.

Tillaga kjörnefndar að framboðslista hefur verið lögð fram og verður rædd á fundinum. „Það er síðan kjördæmisráðsins að samþykkja hann eða gera breytingar á honum ef það er ekki sátt við tillöguna,“ segir Grímur.

mbl.is/Hjörtur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert