Páll, Ásmundur og Vilhjálmur efstir

Páll Magnússon.
Páll Magnússon. mbl.is/RAX

Páll Magnússon, Ásmundur Friðriksson og Vilhjálmur Árnason verða efstu þrír menn á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Unnur Brá Konráðsdóttir alþingismaður, sem lenti í fimmta sæti í prófkjöri flokksins, færist upp í fjórða sætið, en Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem varð í fjórða sæti hafði gefið það út að hún hygðist yfirgefa stjórnmálin í ljósi slæmrar útkomu í prófkjörinu.

Talsverðar umræður spruttu upp eftir prófkjör flokksins í Suðurkjördæmi og Suðvesturkjördæmi, en í Suðurkjördæmi voru þrír karlmenn efstir á lista og í Suðvesturkjördæmi voru fjórir efstu karlmenn.

Konur í Sjálfstæðisflokknum lýstu margar yfir óánægju með niðurstöðuna. Helga Dögg Björg­vins­dótt­ir, formaður Lands­sam­bands sjálf­stæðis­k­venna, sagði í viðtali við mbl.is að henni litist illa á niðurstöðuna og í ályktun frá félaginu kom fram að jafna þyrfti kynja­hlut­föll­in á list­an­um. Þá sendi Hvöt, fé­lag sjálf­stæðis­k­venna í Reykja­vík, frá sér ályktun um að jafna ætti kynjahlutföll á listanum.

Í dag er Sjálfstæðisflokkurinn með fjóra þingmenn í kjördæminu. Ragnheiður Elín leiddi listann, Unnur Brá var í öðru sæti, Ásmundur Friðriksson er þriðji þingmaður og Vilhjálmur Árnason er fjórði þingmaður.

Listinn í heild sinni er eftirfarandi:

1. sæti - Páll Magnússon fjölmiðlamaður

2. sæti - Ásmundur Friðriksson alþingismaður

3. sæti - Vilhjálmur Árnason alþingismaður

4. sæti - Unnur Brá Konráðsdóttir alþingismaður

5. sæti - Kristín Traustadóttir endurskoðandi

6. sæti - Hólmfríður Erna Kjartansdóttir, skrifstofustörf

7. sæti - Ísak Erni Kristinsson deildarstjóri

8. sæti - Brynjólfur Magnússon lögfræðingur

9. sæti - Lovísa Rósa Bjarnadóttir framkvæmdastjóri

10. sæti - Jarl Sigurgeirsson tónlistarkennari

11. sæti - Laufey Sif Lárusdóttir umhverfisskipulagsfræðingur

12. sæti - Jón Bjarnason bóndi

13. sæti - Hjördís Guðrún Brynjarsdóttir sjúkraþjálfari

14. sæti - Bjarki V. Guðnason sjúkraflutningamaður

15. sæti - Helga Þórey Rúnarsdóttir leikskólakennari

16. sæti - Þorkell Ingi Sigurðsson framhaldsskólanemi

17. sæti - Ragnheiður Perla Hjaltadóttir hjúkrunarnemi

18. sæti - Alda Agnes Gylfadóttir framkvæmdastjóri

19. sæti - Sandra Ísleifsdóttir húsmóðir

20. sæti - Geir Jón Þórisson, fyrrverandi lögreglumaður

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert