Verið að hafa kosningarétt af fólki

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Eggert

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, kallaði eftir því á Alþingi í dag að þingrof yrði tilkynnt og boðað formlega til kosninga. Spurði hann hvers vegna þingrofstillaga hefði ekki verið lögð fram og boðað til kosninganna.

Benti hann á að tími fyrir utankjörfundaratkvæði væri orðinn af skornum skammti. Verið væri að hafa kosningarétt af fólki með því að boða ekki til kosninga þannig að hægt væri að hefja utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Skip gætu verið að halda til veiða og námsmenn erlendis þyrftu gjarnan að ferðast um langan veg til þess að geta kosið hjá ræðismönnum.

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, sagðist taka undir það að nauðsynlegt væri að þingrofstillaga lægi fyrir sem fyrst. Honum væri kunnugt um að slík tillaga væri í undirbúningi en gæti ekki greint frá því hvenær hún liti dagsins ljós. Það væri á forræði forsætisráðherra.

„[E]n forseta er þetta ljóst og mun auðvitað beita sér fyrir því að úr þessu rætist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert