Sigurður Ingi fékk 100 prósent atkvæða

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra leiðir lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi fyrir komandi kosningar. Þetta er niðurstaða kosningar á tvöföldu kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi en það fer fram í dag á Hótel Selfossi.

Sigurður Ingi hlaut 147 atkvæði af 147 gildum atkvæðum, eða 100 prósent atkvæða. Hann gaf einn kost á sér í fyrsta sæti listans. Næst tekur við kosning um annað sætið en í dag verður kosið um efstu fimm sæti listans í kjördæminu og hafa jafn margir gefið kost á sér.

Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður gefur ein kost á sér í annað sæti listans en þau Ásgerður Kristín Gylfadóttir, Einar Freyr Elínarson og Fjóla Hrund Björnsdóttir gefa kost á sér í þriðja sætið.

Frétt mbl.is: Náði ekki að endurreisa traust

Í framboðsræðu sinni snerti Sigurður Ingi ekkert á framboði sínu til formanns Framsóknarflokksins en hann lýsti yfir framboði í gær. Sagði hann Framsóknarflokkinn ætla að ganga til kosninga á grundvelli þeirra góðu afreka sem flokkurinn hafi afrekað í ríkisstjórn á kjörtímabilinu, þar sem staða heimilanna sé allt önnur í dag en þegar flokkurinn tók við árið 2013. 

Frá kjördæmisþinginu á Hótel Selfossi í dag.
Frá kjördæmisþinginu á Hótel Selfossi í dag. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson


Rifjaði Sigurður Ingi upp í því samhengi „góðar stundir sem við áttum vorið 2013 þegar við vorum að undirbúa kosningarnar og hefja baráttuna,“ sagði Sigurður Ingi sem lagði grunninn að glæsilegum kosningasigri flokksins í Suðurkjördæmi og á Íslandi öllu. 

Þá sagði hann Framsóknarflokkinn iðulega mælast lægri í skoðanakönnunum fyrir kosningar en komi upp úr kjörkössunum. „Í Suðurkjördæmi komum við sterkast út af öllum kjördæmum, með 20 prósent. En það er ekki nóg,“ sagði Sigurður Ingi um þær skoðanakannanir sem gerðar hafa verið að undanförnu.

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra heilsar afmælisbarni dagins, Haraldi Einarssyni þingmanni.
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra heilsar afmælisbarni dagins, Haraldi Einarssyni þingmanni. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson

Hann þakkaði að lokum framsóknarmönnum traustið sem þeir hafi sýnt sér og flokknum á liðnum árum. „Við erum tilbúin að ganga héðan út sem samheldinn hópur sem ætlar að sigra í kosningunum 29. október næstkomandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert