Bruðluðu með skattfé almennings

Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Með skuldaniðurfellingunni var bruðlað með skattfé almennings til þess að greiða niður sum verðtryggð lán á Íslandi. Ekki námslán hinna ungu, heldur aðeins íbúðalán þeirra sem þegar höfðu komið sér þaki yfir höfuðið. Þetta sagði Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, í eldhúsdagsumræðum nú í kvöld.

„Svona var þetta líka í Búvörusamningunum þar sem Björt Framtíð stóð einn flokka á móti. En aðrir greiddu leiðina fyrir rándýru samningum um gamla Ísland,“ sagði hún.

„Milljarðarnir fara úr ríkiskassanum“

Þá gerði Björt sérstakar skattaívilnanir að umræðuefni, „sem standa stóriðjunni einni til boða. Þarna er kostnaðinum alltaf velt yfir á einhvern annan hvort sem það er almenningur eða venjuleg fyrirtæki.“

Sagði hún stóriðjuna fá afslætti á sköttum og gjöldum, fá ódýrt rafmagn og línulagnir heim að dyrum. „Hún fær meira að segja stundum jarðgöng eins og dæmin sanna.“

„Milljarðarnir fara úr ríkiskassanum. En hvar eru  milljarðarnir sem að áttu að koma inn í staðin? Við í Bjartri Framtíð viljum ekki þessa stefnu. Ísland þarf hana ekki, það er fjárhagsleg áhætta fólgin í henni, og við erum að eyðileggja fyrir ferðamennskunni sem er sú atvinnugrein sem veitir okkur mest.“

Mannúðlegt og rétt að hjálpa flóttafólki

Þá vék hún að innflytjendamálum og sagði flokkinn hafa verið leiðandi í þeim þar sem hann tali fyrir fjölbreyttu samfélagi. „Þeirri umræðu er langt í frá lokið og í henni þarf að sýna kjark og þor. Þeir sem eru á móti aðstoð við flóttamenn bera ekki endilega hag Íslendinga fyrir brjósti. Þeim finnst bara réttlætanlegt að skilja eftir drukknandi börn í erlendum höfum.“

Sagði hún það ekki aðeins mannúðlegt og rétt að skjóta skjólshúsi yfir flóttamenn. Því fylgi einnig samfélagslegur og fjárhagslegur ávinningur. „Það er beinlínis nauðsynlegt fyrir Ísland að fá fleira fólk hér inn til þess að vinna,-  og standa með okkur að því að reka hér gott heilbrigðiskerfi og styrkja aðra innviði.“

Vilja að listamenn fái greitt fyrir vinnu sína 

Þá sagðist hún óhrædd við að tala um það sem hefði mátt fara betur og nefndi að flokkurinn hafi ekki verið nægilega samstilltur þegar áfengisfrumvarpið var til umræðu. „Þá hefur okkur verið legið á hálsi að við hafa ekki aðgreint okkur nægjanlega frá öðrum flokkum. Ef til vill stafar það af því- að við höfum lagt okkur fram við að veita góðum málum brautargengi óháð flokkadráttum.“

Sagði hún Bjarta framtíð ólíka öðrum flokkum. Ólíkt Sjálfstæðisflokknum vilji Björt framtíð að þjóðin fái hærra verð fyrir sjávarauðlindina og fara þá leið að bjóða upp á kvóta á markaðslegum forsendum. Ólíkt Framsókn vilji flokkurinn ekki tjóðra bændur og neytendur við „meingallað kerfi sem virki ekki fyrir neinn.“ Ólíkt þeim og Vinstri grænum sé Björt framtíð ekki hrædd við innfluttar matvörur og treysti bændum í samkeppni.

„Og við ólíkt Pírötum viljum að listamenn og höfundar fái greitt fyrir vinnu sína sem dreift er á netinu. Það er tvískinnungur að góðkenna þjófnað eða  siðferðisbresti á einum stað en fordæma hann úti í skattskjólum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert