Ekki sanngjarnt að fólk eigi varla fyrir mat

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Kosningarnar í næsta mánuði snúast fyrst og fremst um velferð, í víðasta skilningi þess orð. Og þær snúast um heimili landsins,“ sagði Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, við eldhúsdagsumræður á Alþingi í kvöld.

Karl sagði mikill árangur hefði nást á kjörtímabilinu lýkur senn. Tekist hefði að lækka skuldir heimilanna með markvissum aðgerðum og laun hefðu almennt hækkað á sama tíma.

Hann sagði auðugt samfélag verða að hugsa um þá sem minna mega sín. „Höfum eitt á hreinu. Það er ekkert sanngjarnt við það að stórir hópar fólks, aldraðir og öryrkjar, þurfi að lifa á innan við 200 þúsund krónum á mánuði. Það er ekkert sanngjarnt við það að stór hluti þeirrar upphæðar sem þessu fólki er skammtað fari til dæmis í lyf, oft lífsnauðsynleg lyf. Það er ekkert sanngjarnt við það að fólk eigi varla fyrir mat. Það eru alls ekki allir í þessum sporum, en þeir eru of margir,“ sagði Karl.

Heilbrigðiskerfi á ekki að miðast við hvað hver einstaklingur getur borgað

Þingkosningarnar 29. október næstkomandi eiga að snúast um heilbrigðiskerfi fyrir alla. „Ekki heilbrigðiskerfi sem færist sífellt í átt að einkavæðingu heldur kerfi sem bíður öllum þegnum sínum upp á góða heilbrigðisþjónustu ekki að þjónustan miðist við það hvað hver einstaklingur geti borgað. Við verðum að taka greiðsluþáttökukerfið fastari tökum. Skref hafa verið tekin, en göngum lengra.“

Þingmaðurinn sagði að núverandi ríkisstjórn, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, hefði tekið við heilbrigðiskerfinu í rúst. „Það var búið að naga það inn að beini í ríkisstjórnartíð Samfylkingar og Vinstri grænna.“

Oft hausverkur daginn eftir óvissuferð

Kjósendur hafi því val þegar þeir ganga í kjörklefann í lok næsta mánaðar. „Þeir geta valið um áframhaldandi hagvöxt, áframhaldandi uppbyggingu, lágt atvinnuleysi og ábyrga fjármálastjórn sem ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hefur staðið fyrir,“ sagði Karl en hinn valkostinn sagði hann óvissuferð:

„Óvissuferðir geta vissulega verið skemmtilegar. Oftast byrja þær afar vel, en stundum getur hausverkurinn verið mikill daginn eftir.  Við höfum farið í óvissuferðir vinstri flokkanna, þær hafa allar endað illa. Við höfum ekki efni á slíku árið 2016.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert