„Fólk er búið að fá nóg“

Ásta Guðrún Helgadóttir.
Ásta Guðrún Helgadóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, vildi rifja það upp með landsmönnum hvers vegna gengið væri til kosninga í næsta mánuði á eldhúsdagsumræðum í kvöld.

„Við göngum til kosninga vegna þess að fólk er búið að fá nóg. Dropinn sem fyllti mælinn var Kastljósþáttur einn 3. apríl í ár þar sem þáverandi forsætisráðherra vor gerði sjálfan sig og Ísland að fífli með því að ljúga,“ sagði Ásta og benti á að um enn eitt spillingarmálið væri að ræða.

Fólk hefði komið á Austurvöll til að mótmæla áðurnefndum Kastljósþætti. „Til þess að segja að nú væri bara komið nóg. Tuttugu þúsund manns, því það var loksins komið á hreint að það væru í reynd tvær þjóðir í þessu landi.“

Ásta sagði að núverandi kjörtímabil hefði einkennst af lygum og sviknum loforðum. „Það var logið að okkur í lekamálinu og það var logið að okkur um skattaskjól. Loforð beggja stjórnarflokka um þjóðaratkvæðagreiðslu voru svikin og loforð stjórnvalda til þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá hefur aldrei verið efnt.“

Kerfisbreytingar væru nauðsynlegar ef ætlunin væri að byggja undir nýja Ísland. „Ísland sem við einsettum okkur að því að byggja eftir hrun. Og við gerum það bara með því að vera ein þjóð sem vinnur saman, í sama landi. Sem á saman. Og ein þjóð, þar sem sömu lög, sömu skattar og sama heilbrigðisþjónusta er jafngóð fyrir alla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert