Stofna lausnamiðaðan Framfaraflokk

Væntanlega verður úr nógu að velja fyrir næstu þingkosningar þegar …
Væntanlega verður úr nógu að velja fyrir næstu þingkosningar þegar kemur að framboðum. mbl.is/Ómar

Framfaraflokkurinn hefur fengið úthlutað listabókstafnunum N en að sögn Þormars Jónssonar, sem er í forsvari fyrir flokkinn, er um lausnamiðaðan og jarðbundinn flokk að ræða. Aðspurður vill hann ekki staðsetja hann til hægri eða vinstri. Stofnfundur verður haldinn um næstu helgi á Hilton Nordica og fer fundurinn fram á laugardag og sunnudag. Stefnt er á framboð í öllum kjördæmum.

„Vafalaust verður við staðsett einhvers staðar hvort sem okkur líkar betur eða verr. En þetta er fyrst og fremst lausnamiðaður og jarðbundinn flokkur sem leggur áherslu á nýjar hugmyndir og raunhæfar lausnir á þjóðfélagsvandamálum,“ segir Þormar. Mikil hugmyndavinna hafi staðið yfir undanfarið þar sem sem unnið hafi verið með margar hugmyndir.

Þormar nefnir sem dæmi að opnuð verði gátt á vefsíðu Alþingis þar sem allir kosningabærir menn geti sent inn hugmundir sem til að mynda nefnd á vegum þingsins sæi um að bera undir utanaðkomandi sérfræðinga. Sé hugmyndin talin góð sé tekin til umfjöllunar af fulltrúum allra flokka. Þar með stæði flokkapólitík ekki í vegi þess að góðar hugmyndir fengju þá athygli sem þær eigi skilið.

Málefnavinna fer fram á stofnfundinum þar sem lögð verður lokahönd á stefnumál Framfaraflokksins. Þormar segir að fundurinn verði öllum opinn sem vilja taka þátt í að móta stefnumálin og leggja flokknum lið. meðal annars sé verið að leita að fólki til að skipa framboðslista. Flokkurinn sé að sama skapi opinn fyrir öllum áhugaverðum hugmyndum um það hvernig takast megi á við vandamál þjóðfélagsins.

Þormar segir ennfremur að stofnfundur Framfaraflokksins verði kynnt í vikunni með heilsíðuauglýsingum í dagblöðum. Þá sé vefsíða flokksins í vinnslu og verði sett í gang á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert