Nauðsynlegt að brjóta bankana upp

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn

„Það þarf að laga bankakerfið að þörfum almennings, því tækifærið til að gera það verður farið eftir að ríkið selur hluta í bönkunum,“ sagði Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum á Alþingi nú í kvöld. Sagði hann að nauðsynlegt væri að brjóta bankana upp og raða bútunum upp á nýtt.

„Sumir þættir bankarekstrar eiga einfaldlega ekki heima með öðrum í fákeppnisumhverfi. Grunngreiðslukerfin eiga að vera aðskilin öðrum rekstri og öllum aðgengileg og koma þarf í veg fyrir áhættufjárfestingar með innstæður almennings og binda enda á ofurvald fjármálafyrirtækja yfir fólki.“

„Beinlínis vondur bissness“

Þá sagði hann að þjóðin þyrfti efnahagslegan stöðugleika, lækkun vaxta og opnun landsins fyrir samkeppni. Um allt land þurfi uppbyggingu innviða, betri samgöngur og fjarskipti og fleiri tækifæri í menntun, sem styðja svo aftur við sköpun fjölbreyttari og sífellt verðmætari starfa. Besta leiðin til að tryggja samkeppnishæfni landsins sé að fjárfesta í grunnstoðum opinberrar velferðarþjónustu – heilbrigðisþjónustu og menntakerfi sem rekið sé fyrir almennt skattfé.

„Það er ekki bara vitlaust að loka framhaldsskólum fyrir fólki yfir 25 ára aldri og það er ekki bara sársaukafullur óþarfi að hafa áralanga biðlista eftir augnsteinaaðgerðum, liðskiptum eða lagfæringu á gáttaflökti – það er beinlínis vondur bissness og dregur úr framleiðni og velsæld fólks.“

„Eigum ekki að selja fjármálakerfið óbreytt“

„Við þurfum að fá arð af ríkiseignum og gefa ófrávíkjanleg fyrirmæli um samkeppni um sölu þeirra,“ sagði Árni og bætti við að Borgunarhneykslið ætti að vera einsdæmi en ekki fordæmi.

„Þess vegna eigum við ekki að selja fjármálakerfið óbreytt, eins og formaður Sjálfstæðisflokksins er að fitja upp á þessa dagana. Ef það verður gert munu nýir vildarvinir kaupa bankana og rukka íslenskan almenning og fyrirtæki ofurvexti til að fá inn fyrir kaupverðinu. Alveg eins og síðast þegar bankarnir voru seldir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert