Óásættanlegt hve margir lifa við fátækt

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata, talaði um að við lifðum á tímum gríðarlegra hraðra umbreytinga við eldhúsdagsumræður á Alþingi í kvöld. Spillingin flæddi upp á yfirborðið í algerri síbylju og það sem fólk reiddist yfir í dag væri orðið að gamalli tuggu eftir viku.

Mikilvægt væri að gera sig meðvitaðan um aðferðafræði þeirra sem öttu ólíkum hópum gegn hverjum öðrum til að komast til valda. „Það er t.d. enginn málflutningur eins ömurlegur og forsmár eins og að stilla saman tveimur viðkvæmum hópum samfélagsins gegn hvor öðrum, í stað þess að horfast í augun við að það er kerfislæg ástæða fyrir því að þeir sem eru aldraðir, veikir eða öryrkjar þurfa að búa við erfið kjör,“ sagði Birgitta og bætti við að sú neyð væri ekki fólkinu að kenna sem leitaði hingað til að komast í skjól frá stríði og ógn. Auði þjóðar væri ekki skipt jafnt og þeir sem græddu væru að gera það á kostnað hinna veiku og fátæku. 

Það traust sem Pírötum hefði verið sýnt í skoðanakönnunum kallaði á auðmýkt og mikla vinnu til að sýna í verki að hægt væri að breyta samfélagsgerð okkar til langframa í góðri sátt við þjóðina. Það væri hægt með raunsæjum kerfisbreytinum, þar sem úrelt, flókin og oft mannfjandsamleg kerfi yrðu sett til hliðar, með nútímalegri stjórnarháttum. 

„Ef okkur tækist til að mynda að fá aðra flokka með okkur í lið, um að gera með sér samkomulag, um að fyrir kosningar lægu fyrir drög að stjórnarsáttmála þeirra sem vilja vinna saman eftir kosningar, þá myndi það breyta stjórnmálunum til langtíma og verða vonandi til þess að fólk fái á ný aukið traust á Alþingi,“ sagði Birgitta. Þá lægju málamiðlarnir flokkana fyrir fyrirfram. Slíkt kallaði á raunsæi kjósenda.

Píratar hefðu fimm helstu markmið fyrir næsta kjörtímabil. Uppfæra Ísland með nýrri stjórnarskrá, tryggja réttláta dreifingu arðs af auðlindum, endurreisa gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu, efla aðkomu almennings að ákvörðunartöku og endurvekja traust og tækla spillingu.

„Við erum rík þjóð og því er það algerlega óásættanlegt hve margir lifa við fátækt og óvissu um velferð sína. Við viljum finna lausnir sem eru ekki bara plástrar heldur lausnir sem fara í snarrótina á samfélaginu okkar til að fyrirbyggja endalaust rugl og hringl með þau réttindi sem fólk á að geta gengið að án þess að rekast stöðugt á veggi og ranglæti.“ 

Kafteinninn sagði mörg verkefni bíða allra flokka sem hefðu áhuga á að vinna að því að móta nýtt Ísland. „Skotgrafir gamla Íslands eru bæði tilgangslausar og hundleiðinlegar. Ef við viljum stöðva flæði fólks frá landinu þurfum við að nútímavæða landið og gefa ungu fólki tilfinningu fyrir því að hér sé mögulegt að búa án þess að vera skuldaþræll.“

Margir væru feimnir við segja að Ísland væri best í einhverju eftir allt sem á undan væri gengið, en Ísland mætti alveg vera í fararbroddi með eitthvað annað samfélagslegt en útrásarvíkinga og heimsmet í sitjandi ráðherrum með eignir í skattaskjólum.

„Við vorum stolt af því að standa með nýjum lýðræðisríkjum á undan öllum og við getum verið stolt af nýju stjórnarskránni og hvernig hún var unnin. Almenningur hafði miklu meiri aðkomu að gerð hennar en áður hefur verið gert í heiminum okkar. Nýja Ísland er að brjóta sér leiðina í gegnum þær sprungur sem komu í jarðskjálfta hrunsins. Lögfestum nýjan samfélagssáttmálann okkar,“ sagði Birgitta og bætti við að þjóðin sem hún sæi í nýju stjórnarskránni væri þjóð sem henni þætti gott að tilheyra. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert