Reynslumikill bílstjóri lykilatriði

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilju Alfreðsdóttur utanríkisráðherra var tíðrætt um bætt samfélag við eldhúsdagsumræður á Alþingi í kvöld. Markmið flestra mála sem rædd væru í sal Alþingis væri að bæta samfélagið á Íslandi.

„Í morgun birtist á forsíðu Morgunblaðsins frétt um að rússneskar herflugvélar hefðu flogið undir íslenskri farþegaþotu á leið til Stokkhólms í síðustu viku. Að vélarnar hefðu ekki látið vita af sér og flogið án auðkennis, en íslenski flugstjórinn séð þær út um gluggann,“ sagði Lilja.

Sagði hún að þótt ekki hefði verið um brot á alþjóðalögum að ræða minntu atvik af þessu tagi okkur á að þótt við byggjum á eyju væri Ísland svo sannarlega ekki eyland þegar kæmi að öryggismálum. Atvik af þessu tagi staðfesti að vera okkar í Atlantshafsbandalaginu með tilheyrandi eftirliti og vöktun væri ekki aðeins skynsamleg heldur nauðsynleg.

Viljum bæta samfélagið

Tekið hefði verið mikilvægt skref með nýlegri fullgildingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Samningurinn var undirritaður árið 2007 en samþykktur í síðustu viku. „Í stóra samhenginu felur fullgildingin í sér skýra stefnumörkun, um að fatlað fólk njóti fullra mannréttinda og að samfélagið okkar verði betra. Það er markmiðið með flestum þeim málum sem rædd eru í þessum sal. Að bæta samfélagið,“ sagði Lilja.

Talaði hún um að allir væru sammála um að auknar fjárveitingar til heilbrigðismála, menntamála og menningarmála væru til þess fallnar að bæta samfélagið.

„Að sama skapi er fjárfesting í matvælaöryggi og atvinnuþróun ekki greiðasemi við ákveðna hópa, bændur eða búalið. Hún er stefnumótandi ákvörðun, um að hér á landi skuli framleidd matvæli, rétt eins og íslenskar kvikmyndir eða bækur sem bera hróður okkar um heim allan.“ Kostnaðarþátttaka hins opinbera væri ekkert séríslenskt fyrirbæri, heldur venjan í samfélögunum sem við bærum okkur saman við.

Framsókn vill allt landið í byggð

Lilja sagði að það væri auðvitað álitamál hvernig ætti að skipta þjóðarkökunni. „Við getum tekist á um það hvort það sé skynsamlegt eða ekki að eyrnamerkja 0,6% af landsframleiðslu nýsamþykktum búvörusamningum, sem eiga að tryggja matvælaöryggi og stuðla að byggð í landinu. Framsóknarflokkurinn vill tryggja að landið allt verði áfram í byggð, við teljum að það séu hagsmunir okkar allra.“

Mikilvægt væri að heimilin í landinu væru sterk, að atvinnulíf blómstraði, að atvinnuþátttaka væri mikil, að við sköpuðum aukin verðmæti. Mikilvægt væri að við stæðum á rétti okkar sem þjóð, „eins og í Icesave-málinu eða við matvælakeðju sem ber nafn Íslands og vill banna íslenskum fyrirtækjum að auðkenna sig með upprunalandinu á erlendum mörkuðum“.

Lilja talaði um efnahagshrunið og hvernig við hefðum unnið okkur úr því. „Til að byrja með var leiðin hál og brekkan brött, en með mikilli seiglu erum við komin á jafnsléttu á ný og leiðin er greið. Hins vegar hefur aldrei verið mikilvægara en nú, að hafa augun á veginum og tryggja að við keyrum ekki of hratt. Því jafnvel þótt vegurinn hafi batnað eru beygjurnar krappar, og augnabliks kæruleysi getur verið dýrkeypt. Þess vegna skiptir máli, að við stýrið sitji reynslumikill bílstjóri sem kunni að keyra við ólíkar aðstæður.“ 

Algjör kúvending hefði orðið á stöðu heimilanna á kjörtímabilinu, mörg flókin verkefni hefðu verið leyst og búið hefði verið í haginn fyrir framtíðina. Svigrúm væri þess vegna til að styrkja innviði, heilbrigðisþjónustu, fjarskiptakerfi og styrkja nýsköpun.

„Ferðalagið heldur áfram og á næstu vikum verður tekist á um stefnu og áherslur við stjórn landsins. Ég hlakka til þeirrar umræðu enda er ég bjartsýn á framtíð Íslands.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert