„Svona rugl er ekki í boði“

Ótt­arr Proppé, formaður Bjartrar Framtíðar.
Ótt­arr Proppé, formaður Bjartrar Framtíðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það að íslenskt samfélag hafi verið á hvolfi og pólitíkin lömuð svo mánuðum skiptir út af vandræðum einstakra ráðherra og innanflokksátaka í stjórnarflokkunum nær náttúrulega engri átt. Svona rugl er bara ekki í boði eins og sagt er.“

Þetta sagði Óttarr Proppé, þingmaður og formaður Bjartrar framtíðar, í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum á Alþingi nú í kvöld.

Sagði hann að uppljóstranir Panamaskjalanna hefðu verið kornið sem fyllti mælinn. „Þegar í ljós kom að þáverandi hæstvirtur forsætisráðherra, hæstvirtur fjármálaráðherra og hæstvirtur innanríkisráðherra hefðu átt reikninga í skattaskjólum var það í hrópandi mótsögn við samstöðu almennings til að koma hlutum á réttan kjöl eftir hrunið. Aumkunarverðar tilraunir fyrrverandi hæstvirts forsætisráðherra til afneitunar bitu höfuðið af skömminni.“

Sagði um furðuleg áherslumál að ræða

Sagði hann að nú þegar mánuður væri til kosninga sæti Alþingi enn og að ríkisstjórnin vildi „troða málum í gegnum þingið“ hvort sem um þau væri sátt eða ekki. Nefndi hann LÍN-frumvarpið í því samhengi. „Annað furðulegt áherslumál er að banna verðtryggð lán en bara til mjög þröngs hóps þeirra sem eru ólíklegastir til þess að þurfa eða vilja taka slík lán. Það er dálítið eins og að banna sölu á tóbaki til reyklausra,“ sagði hann og tók dæmi:

„-Góðan daginn, ég fæ kannski hjá þér smávindla?

-Uuuuu. Ertu reykingamaður?

-Nei, ég er reyndar hættur sjálfur.

-Þá get ég ekki afgreitt þig. Ríkisstjórnin var að setja bann…“

Kallað eftir meiri heiðarleika í stjórnmálum

Sagði hann að nú þyrfti að snúa frá óreiðustjórnmálum og lausatökum síðustu ára. Handarbaksvinnubrögð og fúsk ættu ekki rétt á sér. „Það þarf að vanda sig. Kallað er eftir meiri heiðarleika í stjórnmálum og meiri sanngirni í samfélaginu.“

„Þrátt fyrir ömurlegar uppákomur í pólitíkinni hafa makríll, ferðamenn og lágt olíuverð hjálpað til og margt lítur betur út. Sérstaklega ef við horfum á meðaltalið. Sem segir því miður ekki allt.“

Hópar væru út undan í uppganginum. Aukin kostnaðarþátttaka í velferðarkerfinu, takmarkanir á þjónustu og grotnandi innviðir hefðu gert hlutskipti þeirra enn verra. „Það er kerfisvætt verið að takmarka aðgengi að samfélaginu og það þarf að stoppa.“

Sagan hefði sýnt að Íslendingar væru bjartsýn þjóð og settu markið hátt. „Verum ekki þeir aumingjar að þora ekki að tryggja að samfélagið sé raunverulega fyrir alla. Hendum okkur bara í það og fáum sem flesta með í verkið.“

Loks sagðist hann taka undir með öðrum ræðumönnum að átak þyrfti í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og samgöngukerfinu svo eitthvað væri nefnt. En ekki væri nóg að tala aðeins um það rétt fyrir kosningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert