„Þetta gætu verið börnin okkar“

Katrín Jakobsdóttir, þingmaður og formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.
Katrín Jakobsdóttir, þingmaður og formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. mbl.is/Styrmir Kári

„Það eru 65 milljónir manna á flótta. Helmingur þeirra er börn. Þessi börn hafa ekkert til þess unnið að vera svipt framtíð sinni. Þetta gætu verið börnin okkar. Við getum hjálpað fleirum en við gerum núna og við eigum að hjálpa fleirum en við gerum núna.“

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, þingmaður og formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum á Alþingi nú í kvöld. Gerði hún málefni flóttafólks að sérstöku umræðuefni.

„Sumir tala um að innflytjendur ógni velferðarkerfinu okkar. Sú skoðun stangast beinlínis á við staðreyndir, byggist ekki á neinum raunverulegum gögnum. Það er ekki þannig að hér búi svo margir að fleiri komist ekki fyrir. Hér eru nefnilega næg tækifæri til að byggja upp og gera betur. En það er spurning hvaða stefnu við ætlum að taka sem samfélag til þess.“

Enginn ánægður með blekkingar ráðamanna

Þá sagði Katrín að hæstvirtir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hefðu fyllst mikilli bjartsýni rétt fyrir kosningar og væru meira en tilbúnir að eigna sér allan heiður af því. „Allt hafi byrjað að vera frábært þegar þessi ríkisstjórn var mynduð í frægu sumarbústaðapartýi 2013 og síðan hafi allt gengið upp. En það var ekki þannig.”

Sagði hún að margt frábært væri á Íslandi, fólkið og landið, en framkoma ráðamanna hefði ekki verið góð. „Enginn er ánægður þegar hann sér ráðamenn fara með blekkingar og ósannindi.“ Þá sagði hún að þrátt fyrir að ríkisstjórninni hefði tekist að gera marga hluti vel og þrátt fyrir góða stöðu efnahagsmála í ýmsu tilliti væri almenningur ekki ánægður af því að efnahagsbatanum hefði ekki verið skipt jafnt.

Kjör hinna verst stöddu ekki nægjanlega bætt

„Fólki finnst ekki að réttlætið hafi ráðið för. Af því að enn teljast meira en 6.000 börn á Íslandi líða skort. Af því að við heyrum af fólki sem verður að neita sér um læknisþjónustu og lyf vegna þess að það á ekki fyrir þeim. Af því að enn eru stórir hópar aldraðra og öryrkja sem fá 180 þúsund krónur á mánuði og geta með engu móti náð endum saman. Af því að unga fólkið okkar sér það svart á hvítu að kjör þess á Íslandi nú eru verri en þau voru hjá ungu kynslóðinni fyrir þrjátíu árum. Fólk er ekki sátt því að batanum hefur ekki verið skipt jafnt.“

Þá sagði Katrín að kjör hinna verst stöddu hefðu ekki verið nægjanlega bætt og tækifæri hefði ekki verið nýtt til að hefja raunverulega sókn. 

„Ríkisstjórn hinna týndu tækifæra“

Sagði Katrín að núverandi ríkisstjórn væri ekki aðeins „ríkisstjórn hinna týndu tækifæra“ heldur einnig ríkisstjórnin sem hefði ætlað sér að setja alls konar heimsmet. „Fyrst sagðist hún hafa sett heimsmet í skuldaleiðréttingum sem voru þó kannski frekar sýslumet ef miðað var við það sem var lofað fyrir kosningar. Það sem situr eftir er að þessi ríkisstjórn á eitt heimsmet eða að minnsta kosti Evrópumet og það er fjöldi ráðherra í Panama-skjölum. Og það var réttlætt með því að einhvers staðar yrði ríka fólkið að geyma peningana sína. Er þetta fólkið sem ætlar sér að takast á við skattaskjólin?“

Þá sagði hún að spyrja þyrfti hvers konar samfélag við vildum vera. „Við viljum ekki vera samfélag þar sem 6.000 börn líða einhvers konar skort í landi sem telst hið ellefta ríkasta í heiminum. Og já, við höfum líka efni á að taka á móti fleiri meðbræðrum og systrum okkar sem flýja hörmuleg stríð. Það er hægt að hjálpa okkar fólki án þess að loka dyrunum fyrir öðrum. Veljum þau stjórnmálaöfl sem eru reiðubúin í það verkefni.“

„Þess vegna er tækifærið fram undan mikilvægt. Tækifæri til að velja annars konar efnahagsstjórn þar sem ábyrg ríkisfjármálastefna fer saman við markmið um jöfnuð, umhverfisvernd og lýðræði. Tækifæri til að veðja á framtíð þar sem allir leggja til samfélagsins með réttlátum hætti og við höldum áfram að rækta allt þetta dýrmæta sem við eigum saman. Það held ég að sé góð framtíð. Og við eigum ekki að láta segja okkur að sú framtíð sé óraunhæf. Við getum einmitt látið hana verða ef við gerum það saman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert