Þingi lýkur ekki á föstudaginn

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis.
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis. mbl.is/Ómar Óskarsson

Harla ólíklegt er að hægt verði að standa við starfsáætlun þingsins í ljósi þeirra stóru mála sem til stendur að afgreiða á yfirstandandi þingi. 

Þetta upplýsti Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, við upphaf þingfundar í dag. Þetta hafi verið niðurstaða fundar forsætisnefndar þingsins. Brást hann þar við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur, formanni Samfylkingarinnar, sem kvaddi sér hljóðs undir liðnum fundarstjórn forseta.

Einar sagðist þó vonast til þess að úr þessu rættist á næstunni. Þannig væri hægt að leggja mat á það hvaða mál væru forgangsmál og hver ekki og ná saman um það.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, tók einnig til máls og benti á að þingstörf hefðu gengið vel til þessa. Ekki hefði til að mynda verið um að ræða málþóf. Hins vegar væru aðeins þrír þingfundardagar eftir.

Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, minnti á að það hefði verið ríkisstjórnin sem hafi ákveðið að stytta kjörtímabilið. Það væri ljóst að hún myndi ekki geta klárað öll þau mál sem hún stefndi að því að ljúka.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, benti á að enn væri að berast ný þingmál og spurði Einar hvort ekki væri kominn tími til að grípa í taumana.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, að í ljósi þess að ekki yrði staðið við starfsáætlun væri hann hálfpartinn farinn að sjá eftir því að hafa verið málefnalegur í þinginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert