Tortryggni eykst þegar traustið hverfur

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert

„Traust milli almennings og kjörinna fulltrúa er grunnforsenda farsællar stjórnunar. Þegar traustið hverfur eða laskast, eykst tortryggnin, aukin tortryggni leiðir til aukins óróa,“ skrifar Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra sem hvetur flokksmenn til að mæta á flokksþings Framsóknarflokksins.

Þetta kemur fram í færslu sem Sigurður hefur birt á Facebook-síðu sinni. Sigurður Ingi greindi nýverið frá því að hann myndi bjóða sig fram gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknaflokksins, á flokksþinginu

Hann segir að Framsóknarflokkurinn sé samvinnuflokkur og flokksþing sé æðsta vald hans.

„Um helgina komum við saman, förum yfir þann mikla árangur sem náðst hefur á kjörtímabilinu, kjósum okkur forystu og mótum stefnu okkar fyrir komandi kjörtímabil. Mikilvægt er að huga að því hvernig ásýnd Framsóknarflokksins, flokksins okkar, verður í komandi kosningum og við myndun nýrrar ríkisstjórnar,“ skrifar Sigurður.

„Traust milli almennings og kjörinna fulltrúa er grunnforsenda farsællar stjórnunar. Þegar traustið hverfur eða laskast, eykst tortryggnin, aukin tortryggni leiðir til aukins óróa,“ skrifar hann ennfremur.

„Ég er þakklátur fyrir það traust sem nýlegar kannanir gefa til kynna að ég njóti í samfélaginu, bæði hjá flokksmönnum og almenningi. Hagvaxtarskeiðið sem við lifum núna, er eitt það lengsta í sögu landsins. Höldum áfram á þeirri braut. Ég óska okkur öllum góðs flokksþings og hvet alla fulltrúa til að mæta og hafa áhrif. Samstaðan mun skila okkur best fram veginn, hér eftir sem hingað til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert