Úr stúdentapólitíkinni í landsmálin

Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, 28 ára stjórnmálafræðingur, var kjörinn formaður Ungra …
Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, 28 ára stjórnmálafræðingur, var kjörinn formaður Ungra jafnaðarmanna á 16. landsþingi hreyfingarinnar í dag. Ljósmynd/Ungir jafnaðarmenn

Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, 28 ára gamall stjórnmálafræðingur, var kjörinn formaður Ungra jafnaðarmanna á 16. landsþingi hreyfingarinnar í dag. Á landsþinginu var samþykkt stjórnmálaályktun þar sem menntastefna stjórnvalda er gagnrýnd harðlega. Þá sérstaklega frumvarp menntamálaráðherra um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Þórarinn Snorri er í framboði fyrir Samfylkinguna í sjötta sæti í Reykjavík norður. Hann hefur verið varaformaður Ungra jafnaðarmanna síðastliðin tvö ár en var áður formaður Skrökvu í stúdentapólitíkinni. „Þannig að ég er svona týpískur að því leiti að ég sleit pólitísku-barnaskónum í stúdentapólitíkinni en ekki í þessum hefðbundnu hreyfingum heldur hreyfingu sem vildi hrista upp í hlutunum og breyta þeim,“ segir Þórarinn Snorri í samtali við mbl.is. 

Verið að plástra fjársvelt kerfi 

Á landsþinginu var frumvarp menntamálaráðherra um Lánasjóð íslenskra námsmanna rætt og segir Þórarinn að Ungir jafnaðarmenn líti svo á að verið sé að reyna að plástra fjársvelt kerfi með því að dreifa greiðslubyrðinni á þá sem að síst ætti að dreifa henni á. „Frekar ætti ríkið að afla sér þeirra tekna sem þarf til að fara í raunverulegt átak í þessu fjársvelta kerfi okkar.“

Í ályktun Ungra jafnaðarmanna frá landsþinginu segir: „Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í menntamálum hafa flestar miðað að því að stytta nám til þess að koma ungu fólki sem fyrst út á vinnumarkaðinn. Afleiðingin er minni fjölbreytni í menntakerfinu og færri tækifæri fyrir þá sem þurfa meiri sveigjanleika. Má þar nefna styttingu framhaldsskólans án samráðs við hagsmunaaðila og 25 ára aldurstakmark í framhaldsskólum. Nýjasta dæmið um þetta er frumvarp um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem vegur að jöfnuði í samfélagi og dregur úr tækifærum fólks til menntunar.“

Frá fundinum í dag.
Frá fundinum í dag. Ljósmynd/Ungir jafnaðarmenn

Ríkir ekki full eining um frumvarpið

Landsþing Ungra jafnaðarmanna leggst gegn því að frumvarp menntamálaráðherra um LÍN hljóti flýtimeðferð á Alþingi og segir frumvarpið hygla þeim efnameiri á kostnað þeirra efnaminni og stuðla þannig að ójöfnuði í samfélaginu. Þá ríki heldur ekki full eining um frumvarpið innan hagsmunasamtaka stúdenta. „Slíkt frumvarp hefur ekki hagsmuni allra námsmanna að leiðarljósi. Þvert á móti mun þreföldun vaxta af námslánum og afnám tekjutengingar bitna harkalega á tekjulágum lánþegum, námsmönnum erlendis og námsmönnum með börn á framfæri,“ segir í ályktuninni.

Á landsþinginu var framtíðarsýn Ungra jafnaðarmanna einnig rædd en lagt var út frá þeim gildum sem samþykkt voru í stefnuyfirlýsingu Ungra jafnaðarmanna. „Við erum græn hreyfing, umburðalynd, frjálslynd og jafnaðarmenn. Við teljum að samfélagið sem að við búum í núna sé óréttlátt samfélag en það þurfi alls ekki að vera svoleiðis. Við vorum að leggja fram í dag framtíðarsýn þar sem við byggjum upp heilbrigðara samfélag þar sem að ríkir meiri jöfnuður, meiri mannréttindi , meira frjálslyndi og meiri femínismi ræður ríkjum,“ segir Þórarinn að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert