Sigurvegari er sá sem kann að tapa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins hélt yfirlitsræðu sína á flokksþingi …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins hélt yfirlitsræðu sína á flokksþingi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nú stendur yfir dagskrárliðurinn „almennar umræður“ á flokksþingi Framsóknarflokksins og skiptast flokksmenn á að lýsa yfir stuðningi sínum við Sigurð Inga og Sigmund Davíð. Aðrir ítreka mikilvægi þess að enginn maður sé stærri en flokkurinn og mikilvægt sé að halda sátt innan flokksins, hvernig sem formannskjörið fer.

Má því segja að andrúmsloftið í Háskólabíói sé rafmagnað en athygli vekur að langflestir þeirra sem tekið hafa til máls undir dagskrárliðnum eru karlar.

Fyrstur til að kveða sér hljóðs var Vilhelm Úlfar Vilhelmsson sem lýsti því yfir að hann gefi kost á sér til formanns. Meðal þeirra sem einnig hafa tekið til máls eru þingmennirnir Páll Jóhann Pálsson og Jóhanna María Sigmundsdóttir en hvorugt þeirra lýsti yfir afgerandi stuðningi við neitt formannsefnanna. 

Páll Jóhann sagði þó að þingstörfin eigi að snúa um liðsheild en ekki „að spila sóló og reyna að slá sér til riddara.“ Þá þakkaði Jóhanna María flokksfélögum sínum fyrir að hafa veitt sér brautargengi til að taka sæti á þingi aðeins 21 árs gömul.

„Sá sem ekki kann að tapa á ekki að stjórna“

Athyglisverð uppákoma var þegar Kristján Heiðar Baldursson frá Akranesi steig í pontu og kallaði upp þá Sigurð Inga og Sigmund Davíð til að fá þá til að takast í hendur. Sigmundur steig á svið en Sigurður Ingi var ekki í salnum sem þá var hálftómur. Ekki var gert matarhlé að loknum ræðum ráðherra og því fámennt í salnum þegar þetta var.

Fulltrúi steig á svið í stað Sigurðar Inga og var þeim báðum afhent gjöf með áletrun frá gamalli konu í Borgarfirði. Áletrunin á pakkanum til Sigurðar Inga var svo hljóðandi; „Sá sem ekki kann að tapa á ekki að stjórna,“ en á pakkanum til Sigmundar stóð eitthvað á þessa leið; „sigurvegarinn er alltaf sá sem kann að taka tapi án eftirmála og girðir sig í brók.“

Gjöfin til Sigurðar Inga innihélt upprúllað Bændablað en Sigmundur hvarf af sviðinu áður en ljóst hvað var í pakkanum til hans.

Að loknum almennum umræðum taka við nefndarstörf og þá kvöldverður en þingstörf halda svo áfram á morgun þegar meðal annars verður kosið um forystu flokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert