Stimpli Framsóknar stolið?

Nokkuð hefur gustað um Framsóknarflokkinn að undanförnu en stimpill með …
Nokkuð hefur gustað um Framsóknarflokkinn að undanförnu en stimpill með listabókstaf flokksins hvarf með dularfullum hætti úr kjörklefa í íslenska sendiráðinu í Kaupmannahöfn. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Stimpli með listabókstaf Framsóknarflokksins, B, kann að hafa verið stolið úr kjörklefa í íslenska sendiráðinu í Kaupmannahöfn. Upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins staðfestir í samtali við mbl.is að stimpillinn hafi horfið úr kjörklefanum. 

„Hann bara hvarf,“ útskýrir Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, en mögulega var hann tekinn til handargagns. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla fyrir alþingiskosningarnar er þegar hafin en utanríkisráðuneytið annast framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu sem fer fram erlendis. 

Þegar upp kemur staða sem þessi segir Urður að allir stimplar séu teknir úr umferð og nýir pantaðir í staðinn. Þar til að hægt er að tryggja að allir stimplar séu til staðar verða þeir sem greiða atkvæði utankjörfundar að rita listabókstaf á kjörseðil með penna.

Stimplarnir voru fjarlægðir um leið og í ljós kom að stimpil Framsóknarflokksins vantaði en óljóst er hve langur tími leið frá því stimpillin hvarf og þar til það uppgötvaðist. Líklegt þykir að stimplinum hafi verið hnuplað en erfitt er að segja til um með vissu hvað nákvæmlega varð um hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert