Sá ekki ástæðu til að skipta um disk

„Ég veit að það var brotist inn í tölvuna hjá …
„Ég veit að það var brotist inn í tölvuna hjá mér, ég lét skoða það,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráherra á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins. michal-rojek

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, sá ekki ástæðu til þess að skipt væri um disk fartölvu forsætisráðuneytisins né að Windows-stýrikerfið yrði sett upp að nýju eftir að grunur vaknaði um að tölvan hefði sýkst af þekktri tölvuveiru - þvert á ráðleggingar starfsmanna rekstrarfélagsins. Ríkislögreglustjóri krafðist þess fimm mánuðum seinna að tölvan yrði innkölluð og öllum gögnum af innra drifi hennar eytt með tryggum hætti. Þetta kemur fram í frétt á vef RÚV.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í samskiptum starfsmanna ríkislögreglustjóra og starfsmanna rekstrarfélags Stjórnarráðsins sem fréttastofa RÚV hefur undir höndum.

Sigmundur Davíð birti á Facebook-síðu sinni í gær bréf frá ríkislögreglustjóra vegna tölvumálsins svokallaða og vitnaði í færslu sinni til gagna sem hann sagðist hafa fengið á grundvelli upplýsingalaga. Í þeim gögnum kæmi meðal annars fram að  „að tölvupóstur sem sendur var á mig og látinn líta út fyrir að hann hefði komið frá öðrum en þeim sem sendi hann hefði líklega innihaldið þekkta tölvuveiru að nafni „Poison Ivy backdoor“,“ skrifaði Sigmundur á Facebook-síðu sinni í gær.

Í ræðu Sigmundar á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins um miðjan september kom fram: „Ég veit að það var brotist inn í tölvuna hjá mér, ég lét skoða það,“ sagði hann.

 Þessi ummæli vöktu mikla athygli og á Alþingi sagði Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, að sér fyndist að kanna þyrfti þetta mál frekar og fara yfir hvort tilefni væri til að kalla saman þjóðaröryggisráð. 

Fréttastofa RÚV óskaði í gær eftir gögnum Sigmundar Davíðs hjá ríkislögreglustjóra á grundvelli upplýsingalaga. Í þeim gögnum kemur meðal annars fram að daginn eftir umræðurnar á Alþingi  ákvað embætti ríkislögreglustjóra að skoða málið og ráðfærði sig meðal annars bæði við ríkissaksóknara og vararíkissaksóknara. 

Í dagbók embættisins vegna málsins kemur fram að Ásgeir Karlsson, yfirmaður greiningardeildar ríkislögreglustjóra, hafði meðal annars samband við Sigríði Friðjónsdóttur, ríkissaksóknara, og spurði hana um lagalega skyldu ráðherra að tilkynna innbrot í tölvu sína - hann fékk þau svör að ekkert ákvæði væri til um það í lögum.

Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, óskaði í framhaldinu eftir fundi með starfsmönnum rekstrarfélags Stjórnarráðsins og á þeim fundi var lagt fram minnisblað rekstrarfélagsins um málið. 

Í því minnisblaði, sem fréttastofa hefur, kemur fram að það hafi verið bílstjóri Sigmundar sem setti sig í samband við starfsmenn rekstrarfélagsins föstudaginn 1. apríl, tveimur dögum fyrir þátt Kastljóss og Reykjavik Media um Panamaskjölin, og óskaði eftir því að tölva Sigmundar yrði skoðuð sökum gruns um innbrot.

Tveir starfsmenn fóru í framhaldinu á skrifstofu Sigmundar sem tjáði þeim að hann grunaði að brotist hefði verið inn í fartölvuna hans.  „Fram kemur að hann hafi nýlega opnað viðhengi í tölvupósti sem honum barst í einkapósthólf sitt - gmail. Hann nefndi það því honum fannst sá póstur grunsamlegur og að hann hefði haft samband við sendanda póstsins, sem var aðili sem hann þekkti, en sá sagðist ekki hafa sent póstinn,“ segir í minnisblaði rekstrarfélagsins.

Starfsmennirnir skoðuðu póstinn með leyfi Sigmundar og komust að þeirri niðurstöðu að líklega hefði viðhengið innihaldið þekkta tölvuveiru sem nefnist „Poison Ivy backdoor.“  Einkenni hennar væru að hún opni bakdyr inn í tölvu viðkomandi fyrir aðgengi árásaraðila að tölvunni.

Þrátt fyrir ítarlega leit að smiti og að ummerkjum innbrots í tölvunni fannst þó ekkert. Í minnisblaðinu er á það bent að algengt sé með slíkar tölvuveirur að árásaraðilinn hreinsi til eftir sjálfan sig að lokinni aðgerð. „Ekkert hægt að útiloka að innbrot hafi verið framkvæmt þar sem ráðherra opnaði viðhengið sem innihélt veiruna,“ segir í minnisblaðinu.

Þar kemur einnig fram að starfsmenn rekstrarfélagsins hafi bent ráðherra á að rétt væri að skipta um disk tölvunnar og setja Windows-stýrikerfið upp að nýju. „Ráðherra vildi ekki að það yrði gert,“ segir í minnisblaðinu en málið var engu að síður skráð sem öryggisatvik hjá rekstrarfélaginu.

Ítarlega er fjallað um málið á vef RÚV

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert