Búin að hafa samband við Birgittu

Odd­ný G. Harðardótt­ir, formaður Samfylkingarinnar.
Odd­ný G. Harðardótt­ir, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við tökum þessu með opnum hug og erum reiðubúin að hitta þau og fara yfir stefnumálin,“ sagði Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is um stjórnarviðræðuboð Pírata. 

Píratar boðuðu í dag til blaðamannafundar þar sem for­svars­menn til­kynntu að ekki væri vilji fyr­ir stjórn­ar­sam­starfi með nú­ver­andi stjórn­ar­flokk­um og að Pírat­ar hefðu sent bréf til fjög­urra flokka um mögu­leg­ar stjórn­ar­viðræður eft­ir kosn­ing­ar, Bjart­rar framtíðar, VG, Viðreisn­ar og Sam­fylk­ing­ar­inn­ar.

frétt mbl.is: Píratar útiloka stjórnarflokkana

Oddný segir að hún hafi nú þegar haft samband við Birgittu og verið sé að finna stað og stund í vikunni til fundarhalda. Ekki sé þó hægt að fullyrða hvort eitthvað verði úr samstarfinu. 

„Við leggjum áherslu á heilbrigðiskerfið, málefni fjölskyldna og janfréttismál. Þau hafa lítið tala um jafnréttismál og málefni barna, til dæmis, en við erum sammála um stjórnarskrána, fjármálakerfið og það eru margir aðrir fletir sem liggja saman. Við erum ekki tilbúin að segja á þessari stundu hvort það verði úr þessu kosningabandalag. “

Spurð hvort Samfylkingin taki í sama streng og Píratar varðandi samstarf við núverandi stjórnarflokka segir Oddný að erfitt sé að sjá fyrir sér samstarf með Sjálfstæðisflokknum. 

„Við höfum lagt áherslu á að það eru stefnumálin sem skipta máli og það eru fáir strengir sem liggja saman með Sjálfstæðisflokknum þannig að við teljum það ólíklegt að það gangi upp. Við höfum alltaf sagt að við vildum líta til stjórnarandstöðunnar til samstarfs ef við kæmumst í færi til þess því okkur hefur gengið vel að vinna saman á þessu kjörtímabili.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert