Í takt við vilja VG

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Árni Sæberg

„Við höfum alltaf verið tilbúin í samstarf og opnuðum þetta í febrúar án þess að fá viðbrögð. En það hefur ekkert breyst hjá okkar málflutningi síðan þá,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, aðspurð um beiðni Pírata um samstarf fyrir kosningar.

Hún segir að Vinstri grænir hafi ályktað um það í febrúar að stjórnarandstaðan kæmi samstillt til kosninga enda hafi stjórnarandstaðan unnið vel saman á þessu kjörtímabili. „Við erum búin að tala þannig síðan en svo sem ekki fengið nein viðbrögð þá en við höfum gefið það út að við erum tilbúin í slíkt samstarf. En að sjálfsögðu setjum við fleiri mál á oddinn en eru nefnd af hálfu Pírata,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.

Frétt mbl.is: Píratar útiloka stjórnarflokkana

Fyrr í dag greindu Píratar frá því að þeir hafi óskað eftir samstarfi við fjóra flokka fyrir kosningar, Bjarta framtíð, Samfylkinguna, VG og Viðreisn. 

Katrín segist alveg geta tekið undir margt sem Píratar nefna sem sameiginlegan málefnagrunn en VG leggi áherslu á fleiri mál. Nefnir hún þar sérstaklega skólamál, umhverfismál og byggðamál.

„Það eru auðvitað fleiri mál sem þarf að ræða og skammur tími fram undan,“ segir Katrín.

Hún segir aðspurð um mögulegt stjórnarsamstarf við Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn að það sé hennar skoðun að VG og Sjálfstæðisflokkurinn liggi væntanlega lengst hvor frá öðrum af þessum flokkum. Við sjáum fyrir okkur, að ef förum í ríkisstjórn þá verði að vera um skýr málefni að ræða. Þar viljum við horfa til þess að næsta ríkisstjórn verði jafnaðarstjórn og græn stjórn, segir Katrín í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert