Segir athæfi Bjarna löglegt en siðlaust

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Styrmir Kári

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segir að það væri furðulegt að ætla að taka á spillingu í samfélaginu með flokkum sem hafa verið tengdir við spillingu gegnum tíðina og að athæfi fjármálaráðherra í tengslum við aflandsfélög væri í öðrum löndum talið siðlaust. 

Birgitta kom í viðtal á Sprengisandi á Bylgjunni í dag í kjölfar blaðamannafundar Pírata þar sem forsvarsmenn tilkynntu að ekki væri vilji fyrir stjórnarsamstarfi með núverandi stjórnarflokkum og að Píratar hafi sent bréf til fjögurra flokka um mögulegar stjórnarviðræður eftir kosningar, Bjartrar framtíðar, VG, Viðreisnar og Samfylkingarinnar.

Frétt mbl.is: Píratar útiloka stjórnarflokkana

„Það hefur skapast hefð fyrir því, þegar við erum með tveggja flokka stjórnir, að öllu er lofað fyrir kosningar en eftir kosningar eru gerðar málamiðlanir þannig að þeir sem kusu flokk telja sig svikna. Við viljum athuga hvort við eigum pólitíska samleið með þessum flokkum og við viljum að almennningur viti að hverju hann gengur,“ sagði Birgitta Jónsdóttir.

Í viðtalinu kom einnig fram að Píratar hafi nefnt stað og stund fyrir viðræður í vikunni og að nú þegar hafi henni borist símtal frá fulltrúa flokks sem sé tilbúinn til fundar. Tveimur dögum fyrir kosningar munu Píratar boða til blaðamannafundar til að kynna niðurstöður viðræðna. Þá skaut Birgitta föstum skotum að Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra.

„Fyrir mína parta þá finnst mér skrýtið að fjármálaráðherra sitji enn þá í því embætti, ekki vegna þess að hann hafi gert eitthvað ólöglegt heldur vegna þess að í öðrum löndum væri litið á þetta sem siðlaust.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert