Flokkarnir funda aftur á fimmtudag

Birgitta Jónsdóttir, Óttarr Proppé, Oddný Harðardóttir og Katrín Jakobsdóttir ræða …
Birgitta Jónsdóttir, Óttarr Proppé, Oddný Harðardóttir og Katrín Jakobsdóttir ræða við fjölmiðlamenn eftir fundinn á Lækjarbrekku í dag. mbl.is/Golli

„Niðurstaðan er bara sú að þetta var mjög góður fundur þar sem að við fórum yfir stóru línurnar í þeim málum sem við setjum á oddinn fyrir þessar kosningar og hvaða samstarfsfleti við sjáum í stöðunni,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, að loknum fundi fulltrúa Bjartrar framtíðar, Pírata, Samfylkingar og Vinstri grænna sem lauk upp úr kl. 12:30 í dag. Fulltrúar flokkanna voru sammála um að umræðurnar hefðu verið góðar og jákvæðar og hafa þeir ákveðið að funda aftur á fimmtudaginn. 

Frétt mbl.is: Ræða mögulega vinstri stjórn

„Okkur í VG fannst mjög mikilvægt að við sætum öll við borðið og þeirri ósk var bara vel tekið af hinum flokkunum,“ sagði Katrín. Flokkarnir hefðu unnið vel saman í stjórnarandstöðu og samstöðufletirnir væru fleiri en þeir sem sundra, „það var í raun veru andi þessa fundar.“ 

Ræddu stóru línurnar í áherslumálum flokkanna

Fulltrúar hinna flokkanna tóku í svipaðan streng og Katrín og sagði Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, meðal annars að hér væru á ferðinni flokkar sem vildu umbætur á næsta kjörtímabili. „Við náum vonandi saman um það, þetta var fínn fundur og við höldum áfram að tala saman,“ sagði Oddný.

Spurð hvort einhver mál efðui verið frekar rædd en önnur á fundinum sagði Oddný að farið hefði verið yfir stóru línurnar í áherslumálum flokkanna og að þær féllu nokkuð vel saman. „Við hittumst öll fjögur eftir nokkra daga og förum yfir stöðuna eftir að hafa rætt við okkar fólk,“ bætti Oddný við. 

Vilja ekki fúsk og valdastúss

„Það er allavega að mörgu leyti góður samhljómur en eins og við höfum lagt áherslu á í Bjartri framtíð viljum við almennileg vinnubrögð, viljum ekki vera með fúsk og það er mikilvægt að við höldum því líka til haga í þessari vinnu,“ sagði þá Óttar Proppé, formaður Bjartrar framtíðar að fundi loknum. Aðalatriðið væri að gera vel fyrir land og þjóð og ekki neitt „valdastúss.“

Katrín Jakobsdóttir, Óttarr Proppé og Smári McCart­hy ræðast við eftir …
Katrín Jakobsdóttir, Óttarr Proppé og Smári McCart­hy ræðast við eftir fundinn. mbl.is/Golli

„Þessir flokkar hafa auðvitað verið að vinna saman og það er kannski eðlilegt að við höldum því samtali áfram eins og við erum að gera núna,“ sagði Óttar jafnframt en benti á að vissulega yrðu þessir flokkar að fá kosningu til að svo gæti orðið. „Almenningur kýs á laugardaginn og hann hefur lokaorðið um allt sem gerist.“

Þegar sögulegur fundur

„Auðvitað er það þannig að ástæðan fyrir því að við höfum viljað ræða saman fyrir kosningar er sú að við getum boðið okkar kjósendum uppá að sjá bæði það sem við getum unnið að með öðrum, og ef að það kemur til þess að við þurfum að fara í einhverjar málamiðlanir, að þá liggi það bara fyrir fyrir kosningar,“ sagði þá Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.

Birgitta segir fundinn og viðræður flokkanna nú þegar vera sögulegan en aldrei hafi áður átt sér stað sams konar samtal fyrir opnum tjöldum áður en gengið er til kosninga. 

Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar og Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, að …
Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar og Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, að loknum fundi á Lækjarbrekku í dag. mbl.is/Golli

„Kjósendur gera meiri og meira kröfur um það að þeir fái tækifæri til þess að vita hvað þeir eru að kjósa þegar þeir fara í kjörklefann. Margir verða fyrir vonbrigðum þegar það kemur í ljós að þeir hafa óvart kosið flokk sem þeir vilja alls ekki fá í ríkisstjórn,“ sagði Birgitta jafnframt. Þannig vilji Píratar sýna það í verki að þeir vilji gagnsærri stjórnsýslu en það vilji mjög margir, meðal annars þeir flokkar sem funduðu í dag.

Þá sagði Birgitta sömuleiðis mikilvægt að hafa hugfast að flokkarnir væru með þessu samtali ekki að mynda ríkisstjórn. „Þá værum við einmitt að tala um embætti og eitthvað svoleiðis. Ekkert slíkt hefur verið rætt og verður ekki rætt fyrr en eftir kosningar,“ útskýrði Birgitta.

Frétt mbl.is: „Ekki að fara að mynda stjórn núna“

Viðreisn kaus að fara aðra leið

„Viðreisn fékk nákvæmlega sama boð og allir hinir og Viðreisn hafnaði því að vilja hitta okkur,“ svaraði Birgitta spurningu fréttamanns RÚV um hvers vegna Viðreisn tæki ekki þátt í samræðunum, en á sama tíma og flokkarnir fjórir funduðu í dag hélt Viðreisn blaðamannafund um áherslur og stefnu flokksins.

Frétt mbl.is: Viðreisn sýnir spilin fyrir kosningar

„Að sjálfsögðu hefðu þeir getað komið á þennan fund í dag en ákváðu að hafa blaðamannafund einir og sér þar sem þeir í raun og veru eru að opna sig fyrir samstarfi með öllum, meðal annars Sjálfstæðisflokki og Framsókn,“ sagði Birgitta jafnframt. „Við viljum bara að það séu skýrar línur og mér sýnist langflestir flokkar vilja það sem hér eru.“

Næsti fundur flokkanna fjögurra verður líklega um svipað leyti á fimmtudag, að öllum líkindum einnig í veitingasalnum Litlu Brekku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert