Nær allir flokkar vilja Hringbraut

Frá jarðvegsvinnu við byggingu sjúkrahótels við Hringbraut.
Frá jarðvegsvinnu við byggingu sjúkrahótels við Hringbraut. mbl.is/Styrmir Kári

Sex af þeim sjö stjórnmálaflokkum sem líklegastir eru til að eiga fulltrúa á Alþingi eftir komandi þingkosningar vilja uppbyggingu Landspítala við Hringbraut í Reykjavík. Framsóknarflokkurinn vill einn flokka að nýr Landspítali rísi á nýjum stað og hafa Vífilsstaðir helst verið nefndir í því samhengi.

Morgunblaðið kannaði nýverið afstöðu Bjartrar framtíðar, Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna til staðsetningar nýs Landspítala.

Í svari frá Vinstri grænum kemur m.a. fram að flokkur sá vilji hraða uppbyggingu við Hringbraut eins og hægt er. „Allt tal um að endurskoða staðsetninguna mun aðeins verða til að drepa málinu á dreif og fresta því. Við því má heilbrigðiskerfið ekki.“

Píratar segja endurreisn heilbrigðiskerfisins ekki geta beðið lengur. „Öryggi sjúklinga er ekki tryggt. Áfram skal því haldið með uppbygginguna við Hringbraut án tafar,“ segir í svari flokksins.

Framkvæmdum ljúki fyrir 2022

Viðreisn tekur í sama streng, og vill ljúka byggingu nýs spítala á umræddum stað. „Viðreisn vill að lokið verði við endurbyggingu Landspítala við Hringbraut fyrir árið 2022. Það er kominn tími til að taka höndum saman og klára þetta mál. Annað er ekki boðlegt, hvorki sjúklingum né starfsfólki,“ segir í svari.

Björt framtíð segist í þessu máli sem öðrum leggja áherslu á gott samstarf við hlutaðeigandi aðila og vill hraða uppbyggingu nýs spítala við Hringbraut.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur sömuleiðis áherslu á uppbyggingu við Hringbraut og bendir á að búið sé að tryggja fjármögnun. „Nauðsynlegt er að framkvæmdaáætlun um uppbyggingu Landspítalans gangi eftir,“ segir á heimasíðu flokksins.

Þá er Samfylkingin einnig sömu skoðunar, en á síðu flokksins segir einfaldlega „nýr Landspítali við Hringbraut strax“.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert