Sjálfstæðisflokkur með rúm 25%

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sjálfstæðisflokkurinn er með  25,15% fylgi  samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis en 23,7 prósent sögðust ætla að kjósa flokkinn í síðustu viku. Alþingiskosningar fara fram á laugardaginn. Könnunin var gerð í gær og í fyrrakvöld.

Píratar eru næststærsti flokkurinn með 20,3 prósenta fylgi og Vinstri græn eru með 16,4 prósenta fylgi. Framsóknarflokkurinn og Viðreisn eru álíka stórir, fyrrnefndi flokkurinn með 11,2 prósenta fylgi en Viðreisn með 10,8 prósent. Báðir flokkar bæta við sig milli vikna því að í síðustu viku mældist Framsóknarflokkurinn með 8,5 prósent og Viðreisn með 6,6 prósent.

Samfylking ekki í stjórnarsamstarf ef þetta verður niðurstaðan

Samfylkingin er núna með sex prósenta fylgi, sem er svipað og flokkurinn var með í síðustu viku, og Björt framtíð tapar fylgi milli vikna, er með 5,1 prósent núna en var með 7,4 prósent.

Undanfarið hafa Píratar, VG, Samfylkingin og Björt framtíð rætt saman um samstarf eftir kosningar. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir Samfylkinguna þó ekki geta tekið þátt í stjórnarsamstarfi ef niðurstöður kosninga verða í samræmi við kannanir. „Ekki við þessar aðstæður en við þurfum að styrkja stöðu okkar til að geta farið í slíkt samstarf,“ segir hún í samtali við Fréttablaðið.

Fleiri taka afstöðu í þessari könnun en í fyrri könnunum Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis, eða 76,6 prósent. Rúm sex prósent segjast ekki ætla að kjósa eða skila auðu, níu prósent segjast óákveðin og tæp átta prósent kjósa að svara ekki spurningunni.

Í könnun sem gerð var fyrir viku tóku 68 prósent svarenda afstöðu.  Könnunin var gerð þannig að hringt var í 1.127 manns dagana 24. og 25. október þar til náðist í 802 samkvæmt lagskiptu slembiúrtaki. Svarhlutfallið var því 71,2 prósent.

 Frétt Vísis í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert