Ágreiningsmálin óafgreidd

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, Oddný …
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Golli

„Þetta er í raun það sem náðist einfaldlega í þeirri tímaþröng sem við vorum í. Við höfum í sjálfu sér getað lagt lítinn tíma í þessa vinnu af þeirri ástæðu að við erum auðvitað fyrst og fremst í kosningabaráttu hvert og eitt. En við erum bara mjög sátt við að þessi yfirlýsing er afgerandi engu að síður þó ekki sé upplýst um einhver málefni eða eitthvað slíkt.“

Þetta segir Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi, í samtali við mbl.is, en hann er einn þriggja fulltrúa í viðræðunefnd flokksins um mögulegt stjórnarsamstarf eftir þingkosningarnar á laugardaginn. Stjórnarandstöðuflokkarnir, Vinstrihreyfingin - grænt framboð, Samfylkingin og Björt framtíð auk Pírata, funduðu í morgun í annað sinn um mögulegt stjórnarsamstarf og var sameiginleg yfirlýsing send út í kjölfar fundarins.

Fram kemur í yfirlýsingunni að stjórnarandstöðuflokkarnir hafi fundið mikinn samhljóm á þeim tveimur fundum sem fram hafi farið um mögulegt stjórnarsamstarf. „Við teljum samstarf þessara flokka vera skýran valkost við núverandi stjórnarflokka sem getur skapað ný tækifæri fyrir íslenskt samfélag. Á grundvelli þessa teljum við fulla ástæðu til að kanna möguleika á myndun meirihlutastjórnar ef þessir flokkar fá til þess umboð í komandi kosningum.“

Formlegar áherslur liggja ekki fyrir

Fundahöldin má rekja til blaðamannafundar sem Píratar boðuðu til 16. október þar sem upplýst var að flokkurinn hefði sent bréf til áðurnefndra flokka auk Viðreisnar um stjórnarmyndunarviðræður fyrir kosningar. Stefnt yrði að því að stjórnarsáttmáli lægi fyrir áður en kjósendur gengju til kosninga til þess að þeir gætu vitað fyrir fram hverjar áherslur slíkrar ríkisstjórnar yrðu. Skýrsla um viðræðurnar átti enn fremur að liggja fyrir í dag.

Spurður hvort einhverjar sameiginlegar áherslur liggi fyrir segir Einar að flokkarnir hafi borið saman bækur sínar og komist að ýmsu í þeim efnum. En ekki þó til þess að ganga frá því formlega með því að setja það á blað. „Við höfum fundið mjög marga sameiginlega þætti og viljum róa öll í sömu átt í þessum stóru málum. Þannig að ég er mjög bjartsýnn á það, ef við fáum umboð til þess, að okkur verði ekki skotaskuld úr því að búa til formlega ríkisstjórn.“

Var ákveðið að ræða ekki einstök málefni

Spurður áfram um þau mál sem ekki er samstaða um og hvort tekist hafi í viðræðum stjórnarandstöðuflokkanna að finna lendingu í þeim segir Einar að þau mál hafi vitanlega verið rædd líka. „En við höfum svo sem ekki farið ýkja djúpt í þau mál og það er með ráði gert. Þar kemur líka til þessi tímaþröng. Þetta snýst um þessi stóru mál. Þar er einfaldlega samhljómur.“ Hin málin bíði síns tíma. „Við höfum kannski ekki náð að vinna mikið í þeim.“

Varðandi kröfu Pírata um styttra kjörtímabil til þess að koma í gegn nýrri stjórnarskrá og hvort samstaða sé um það segir Einar að það verði að koma í ljós. Píratar hafi ekki útfært það nákvæmlega. Hins vegar séu allir sammála um að klára stjórnarskrármálið. Spurður um þjóðaratkvæði um Evrópusambandið segir hann: „Við ákváðum að gefa ekki kost á neinum upplýsingum um nein málefni annað en það að orða þetta svona almennt. Að það sé samhljómur í þessum stóru málum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert