Meirihluti hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju

Aðskilnaður ríkis og kirkju nýtur stuðnings meirihluta flokkanna sem eru …
Aðskilnaður ríkis og kirkju nýtur stuðnings meirihluta flokkanna sem eru í framboði til alþingiskosninga. mbl.is/Árni Sæberg

Flestir stjórnmálaflokkanna sem eru í framboði í alþingiskosningunum styðja aðskilnað ríkis og kirkju. Af þeim sjö flokkum sem segjast hlynntir aðskilnaði ætla fjórir að hafa frumkvæði að því að hefja aðskilnaðarferli á næsta kjörtímabili, samkvæmt svörum sem þeir sendu við spurningum Siðmenntar.

Veraldlega lífsskoðunarfélagið Siðmennt sendi stjórnmálaflokkunum fimm spurningar um stefnu þeirra um samband ríkis og kirkju, trúfélagsskráningar fólks, sóknargjöld og lóðaúthlutanir til trú- og lífsskoðunarfélaga.

Björt framtíð, Húmanistaflokkurinn, Píratar, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Vinstri græn segjast öll styðja aðskilnað ríkis og kirkju. Aðeins Framsóknarflokkurinn segist beinlínis andvígur því að skorið verði á sambandið við þjóðkirkjuna en Alþýðufylkingin segist ekki hafa hann á stefnu sinni. Dögun sagðist ekki hafa mótað sér stefnu um það.

Fjórir vilja hefja aðskilnaðarferli

Af þessum flokkum segjast hins vegar aðeins Píratar, Björt framtíð, Húmanistaflokkurinn og Samfylkingin afdráttarlaust ætla að hafa frumkvæði að því að hefja undirbúning ferlis sem endi með aðskilnaði ríkis og kirkju.

Sjálfstæðisflokkurinn segist ekki ætla að hafa frumkvæði að því að hefja aðskilnað því ekki verði ráðist í það að frumkvæði eins flokks. Viðreisn segir tímabært að ræða aðskilnað og bera breytingar á kirkjuskipan undir þjóðina.

Vinstri græn segja ekki fjallað um þetta sérstaklega í kosningaáherslum flokksins fyrir kosningarnar en ljóst sé að samfélagið sé farið að kalla eftir að ríki og kirkja setji málið á dagskrá. Þá ætlar Dögun ekki að setja aðskilnað á dagskrá eftir kosningar, þar sem flokkurinn segir fjöldamörg verkefni krefjast athygli.

Undanþágur fyrir þá sem standa utan félaga

Ríkið er sagt innheimta sóknargjöld fyrir trú- og lífsskoðunarfélög með tekjuskatti en gagnrýnt hefur verið að þeir sem standa utan slíkra félaga greiði til jafns við þá sem eru skráðir í félög. Alþýðufylkingin, Björt framtíð, Húmanistaflokkurinn og Píratar ætla að beita sér fyrir því að þeir sem standa utan trúfélaga verði undanþegnir sóknargjöldum. Björt framtíð vill enn fremur að trú- og lífsskoðunarfélög sjái sjálf um að innheimta félagsgjöld sín.

Dögun vill ekki beita sér fyrir því að gera þá sem standa utan félaga undanþegna sóknargjöldum.

Afstaða annarra flokka er ekki eins afgerandi. Framsóknarflokkurinn svaraði spurningu Siðmenntar á þá leið að það væri skýr krafa að sóknargjöld rynnu óskipt til trú- og lífsskoðunarfélaga. Samfylkingin segist ekki hafa ályktað sérstaklega um þetta atriði en vísar til hlutleysis stjórnvalda gagnvart trúarskoðunum fólks. Sjálfstæðisflokkurinn segist ekki hafa tekið afstöðu.

Viðreisn segir að ríkið eigi ekki að skipta sér af innheimtu gjalda félaganna og getur hugsað sér að breyta lögum en veita sanngjarna aðlögun. Vinstri græn vilja skoða aðkomu ríkisins að fjármögnun trú- og lífsskoðunarfélaga við skoðun á tengslum ríkis og kirkju.

Teikning af fyrirhugaðri mosku í Reykjavík.
Teikning af fyrirhugaðri mosku í Reykjavík.

Lóðir til trúfélaga

Niðurfelling á gjöldum á lóðum fyrir trú- og lífsskoðunarfélög hafa verið töluvert í umræðunni, ekki síst í tengslum við úthlutun á lóð undir mosku í Reykjavík fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Siðmennt spurði flokkana hvort þeir ætluðu að beita sér fyrir því að afnema lagaskyldu sveitarfélaga til að sjá félögunum fyrir lóðum.

Alþýðufylkingin, Björt framtíð og Píratar vilja aflétta þessari kvöð af sveitarfélögunum en Dögun er á móti því.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki tekið afstöðu og hvorki Framsóknarflokkurinn né Samfylkingin hafa ályktað um hvort trúfélög eigi að fá lóðir frá sveitarfélögum. Samfylkingin segir að ef ívilna eigi á annað borð eigi öll trú- og lífsskoðunarfélög að hafa sama rétt. Húmanistaflokkurinn telur einnig að rétturinn eigi að ná til allra félaga og er ekki á móti slíkum stuðningi.

Viðreisn segir ívilnanir af þessu tagi óeðlilegar, þar sem trú og trúarbrögð eigi að vera án afskipta ríkisins. Vinstri græn segjast geta hugsað sér aðlögunartíma þar til lagaskylda verði afnumin með vísan til þess að mörg trúfélög hafi þegar fengið lóðum úthlutað og gæta þurfi jafnræðis.

Hvorki Íslenska þjóðfylkingin né Flokkur fólksins svöruðu spurningum Siðmenntar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert