Sammála um að efla heilbrigðiskerfið

Fulltrúar stjórnmálaflokkanna á þingi ASÍ.
Fulltrúar stjórnmálaflokkanna á þingi ASÍ. mbl.is/Árni Sæberg

Fulltrúar stjórnmálaflokkanna sátu fyrir svörum á 42. þingi Alþýðusambands Íslands í dag þar sem þeir ræddu um áherslur sinnan flokka fyrir þingkosningarnar á laugardaginn og sátu fyrir svörum. Um var að ræða þá sjö flokka sem mælst hafa með yfir 5% fylgi í skoðanakönnunum að undanförnu. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, reið á vaðið og gerði góða stöðu í efnahagslífnu að umtalsefni. Verðbólga væri lág, atvinnustigið gott, hagvöxtur mikill og hagvaxtarspáð góð.

Þannig væri útlitið að mörgu leyti býsna gott. Eftir sem áður væru verkefnin ærin. Þar á meðal uppbygging heilbrigðiskerfisins, þétting velferðarkerfisins og áframhaldandi uppbygging fæðingarorlofskerfisins. Stærsta verkefnið væri hins vegar að ná samstöðu á milli stjórnvalda og vinnumarkaðarins við að ná niður verðbólgu og vöxtum. Bjarni sagði ástæðu þess að atvinnuleysi á Íslandi væri lægra en annars staðar í Evrópu væri fyrst og fremst sú að Ísland hefði eigin gjaldmiðil.

Þorsteinn Víglundsson, frambjóðandi Viðreisnar, sagði stöðuna í efnahagslífinu um margt gott en tryggja þyrfti samkeppnishæfni miðað við önnur lönd. Ekki hafi hins vegar tekist að hemja gengissveiflur. Taka þyrfti upp fastgengisstefnu sem þýddi lága verðbólgu og vaxtastig. Salek-samkomulagið á vinnumarkaði hefði verið mikilvægt sem og lög um opinber fjármál sem sköpuðu aga. Hægt væri að nota þetta til þess að byggja upp raunverulegan og varanlegan stöðugleika.

Kerfislæg spilling var Ástu Guðrúnu Helgadóttur, þingmanni Pírata, ofarlega í huga. Sagði hún slíka spillingu vera úti um allt í íslensku samfélagi. Valkostirnir í kosningunum væru skýrir. Spillingarflokkarnir, eins og hún orðaði það, eða eitthvað annað. Standa þyrfti saman um að endurreisa heilbrigðiskerfið og opna stjórnsýsluna. Spurð hver stefna Pírata væri í vinnumarksmálum sagði hún þá stefnu ekki mikla en hins vegar hefði flokkurinn stefnu í nýsköpunarmálum.

Heilbrigðisþjónusta óháð efnahag mikilvæg

Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði að talað væri um efnahagslegan stöðugleika sem töfraorð. Hins vegar yrði engin sátt nema félagslegur stöðugleiki væri einnig til staðar. Tryggja þyrfti lága vexti og verðbólgu. Einn liður í því væri að koma á einu lífeyriskerfi sem þyrfti að setja strax á dagskrá eftir kosningar og klára fyrir áramót. Mesta kjarabótin væri að skipta um gjaldmiðil. Samfylkingin vildi ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna.

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, sá sér ekki fært að sækja fundinn vegna blaðamannafundar flokksins á sama tíma en í hans stað mætti Þórunn Pétursdóttir, frambjóðandi flokksins. Lagði hún einkum áherslu á mikilvægi umhverfismála og ábyrgð á því að vernda umhverfið. Þar væri sjálfbærni mikilvæg. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns frmaboðs, sagði að þrátt fyrir efnahagslegan uppgang væri á sama tíma vaxandi misskipting hér á landi.

Katrín sagði sömu samþjöppun á fjármagni hér á landi og annars staðar og að ójöfnuðurinn yrði í gegnum fjármagnið. Það skipti máli að kjósa stjórnmálaflokka sem leggðust gegn misskiptingu. Þeir sem hefðu meira fé á milli handanna yrðu að leggja meira til samfélagsins. Styrkja þyrfti velferðarkerfið. Þó fleiri krónur hefðu verið lagðar í heilbrigðiskerfið hefðu framlög til þess minnkað miðað við landsframleiðslu. Peningaleysi ætti ekki að þýða að fólk neitaði sér um læknisþjónustu.

Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, sagði stöðu efnahagsmála á Íslandi góða. Skuldastaða heimilanna hefði batnað verulega og atvinnuleysi væri lágt. Framsóknarmenn vildu grípa til róttækra aðgerða til þess að hækka meðaltekjur og tekjur hinna lægstlaunuðu. Þeir hefðu sýnt áður að þeir þorðu að fara í róttækar breytingar. Til að mynda með skuldalækkun heimilanna. Vel skipulagður vinnumarkaður skipti miklu og gott samstarf við launþegahreyfinguna.

Frá þingi ASÍ í dag.
Frá þingi ASÍ í dag. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert