Ekki víst að atkvæðin komist til skila

Hægt er að kjósa utan kjörfundar til klukkan tíu í …
Hægt er að kjósa utan kjörfundar til klukkan tíu í kvöld. Atkvæðin verða síðan að skila sér á talningastaði í réttum landshluta fyrir tíu annað kvöld. Kristinn Ingvarsson

Opið verður fyrir utankjörfundaratkvæðagreiðslur til tíu í kvöld fyrir alla og frá tíu í fyrramálið til klukkan sautján síðdegis fyrir þá sem búa utan höfuðborgarsvæðisins. Ekki er hins vegar hægt að ábyrgjast að þau atkvæði sem greidd verða í kvöld eða á morgun og fara eiga á talningastað í Norðausturkjördæmi komist til skila í tæka tíð. Þetta segir Bergþóra Sigmundsdóttir, sviðstjóri þinglýsinga og leyfasviðs hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, en veðurspáin fyrir kjördag hefur versnað og varar Veðurstofan við stormi á morgun.

„Við vitum ekkert hvort það verður flogið á morgun. Eins og staðan er núna þá getum við ekki ábyrgst að utankjörfundaatkvæðin komist til skila,“ segir Bergþóra og bætir við. „Við munum þó koma atkvæðunum á Selfoss og í Borgarnes.“

Komist atkvæðin ekki á talningastaðina fyrir klukkan tíu annað kvöld þá verða þau ógild þar sem aðrar reglur gilda um utankjörfundar kjörstaði en aðra kjörstaði og eru þeir sem kjósa utan kjörfundar utan höfuðborgarsvæðisins ábyrgir fyrir að koma atkvæðum sínum á talningastað.

Bergþóra segir 2.658 atkvæði hafa verið greidd utan kjörfundar hjá Sýslumanninum í höfuðborgarsvæðinu fyrstu átta tímana sem kjörstaður var opinn í dag. „Það eru yfir 300 atkvæði á klukkutímann,“ segir hún.

27.546 atkvæði hafa verið greidd utan kjörfundar frá því atkvæðagreiðsla hófst hjá sýslumönnum, sendiráðum og þeim ræðismönnum sem eru með tölvusamband. Alls hafa borist 3.661 aðsend atkvæði og kann hluti þeirra að hafa borist frá ræðismönnum sem eru án tölvusambands.

Bergþóra segir tvo kassa með atkvæðum hafa verið senda með vél frá Akureyri í gær, einn í dag og til standi að senda einn til viðbótar með vélinni klukkan 19.30. „Núna er formaður yfirkjörstjórnar á Suðurlandi hér hjá okkur og er að taka kassa sem eru til hans. Á eftir kemur formaður kjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi og sækir kassa sem eru merktir honum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert