Þorsteinn: Lágkúruleg vinnubrögð

Þorsteinn Víglundsson.
Þorsteinn Víglundsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Oddvitar Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður tókust á um meint lágkúruleg vinnubrögð flokka á síðustu metrum kosningabaráttunnar á Facebook í kvöld. Hófust deilurnar í kjölfar þess að Þorsteinn Víglundsson, oddviti Viðreisnar, deildi frétt mbl.is um nafnlausar áróðurssíður og sagði þingmann Sjálfstæðisflokksins hafa varað stuðningsfólk Viðreisnar við að kjósa flokkinn.

Í færslu Þorsteins kemur fram að fjöldi stuðningsmanna Viðreisnar hafi undanfarna daga fengið símtöl þar sem varað sé við Viðreisn og jafnvel einstökum frambjóðendum flokksins. Vísar Þorsteinn til þess að þingmaður Sjálfstæðisflokksins hafi í einu tilviki hringt og sagt Þorstein vera „handbendi vinstri afla í landinu vegna góðra samskipta við forystu verkalýðshreyfingarinnar“. Sagði Þorsteinn þetta lýsa mikilli örvæntingu og að ekki væri treyst á málefnalega rökræðu. Spurði hann Guðlaug Þór hvort flokkurinn væri ekki vandaðri að virðingu sinni en þetta.

Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðlaugur Þór Þórðarson. Ljósmynd/Guðlaugur Þór Þórðarson

Guðlaugur svaraði þessu fljótt og gerði því skóna að Þorsteinn setti reglulega inn pósta til að fá stuðningsmenn annarra flokka til að kjósa sinn flokk. Sagði Guðlaugur að ef hann myndi gera það sama hefði hann lítinn tíma í annað.

Guðlaugur sagðist aftur á móti alltaf til í rökræðu við Þorstein „Nefndu stað eða stund,“ sagði Guðlaugur.

Í seinna svari sínu segist Guðlaugur ekki kannast við þessa lýsingu, en ítrekar að hann sé til í umræðu um málefni við Þorstein. Virðist hann spenntur fyrir því að kíkja í þáttinn Harmageddon á X-inu og ræða við Frosta Logason um málið, en Frosti blandaði sér einnig í umræðuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert