40 milljónir til Flokks fólksins?

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Eggert

Einn stjórnmálaflokkur hlaut nægilega mörg atkvæði í alþingiskosningunum til að öðlast rétt til fjárframlaga úr ríkissjóði, án þess þó að koma mönnum á þing. Var það Flokkur fólksins, sem fékk 6.707 atkvæði og þannig 3,5% atkvæða á landsvísu.

Samkvæmt lögum þurfa flokkar að fá 5% atkvæða eða meira til að komast inn á þing, en sú takmörkun kemur þó ekki í veg fyrir fjárframlög úr ríkissjóði, sem öll þau stjórnmálasamtök eiga rétt á, sem ná að lágmarki 2,5% atkvæða í alþingiskosningum.

Dögun og Flokkur heimilanna fengu greitt

Greiðslur til stjórnmálasamtaka eru samkvæmt ákvörðun fjárlaga hverju sinni og miðast við atkvæðamagn kosninga þar á undan. Ef litið er til fjárframlaga úr ríkissjóði til stjórnmálasamtaka árið 2015 má sjá að Flokkur heimilanna, sem hlaut 3,02% í kosningunum árið 2013, fékk í sinn hlut 9.156.197 krónur.

Dögun, sem hlaut 3,10% í þeim sömu kosningum, fékk 9.393.645 krónur úr ríkissjóði á síðasta ári, en 286 milljónir króna voru til skiptanna samkvæmt vef fjármálaráðuneytisins.

Verði þeirri upphæð ekki breytt í næstu fjárlögum má lauslega áætla að Flokkur fólksins muni fá, með sín 3,5% atkvæða, rétt rúmlega tíu milljónir króna eða 10.010.000 krónur á ári. Fari svo að komandi kjörtímabil verði til fjögurra ára gæti fjárframlag til flokksins úr ríkissjóði því numið rúmlega fjörutíu milljónum króna, samkvæmt bráðabirgðaútreikningum mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert