Einar Pírati: Súrsæt niðurstaða

Einar Brynjólfsson, oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi, til hægri, á kosningavöku …
Einar Brynjólfsson, oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi, til hægri, á kosningavöku flokksins í kvöld. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Einar Brynjólfsson Pírati, efsti maður á lista flokksins í Norðausturkjördæmi, verður nýr þingmaður, ef svo fer sem horfir og segist vitaskuld ánægður með það. „Tilfinningarnar eru samt blendnar. Við gerðum okkur vissulega von um að ná tveimur manneskjum inn hér í kjördæminu en litlar líkur eru á því héðan af,“ sagði Einar við mbl.is um eittleytið í nótt.

„Auðvitað erum við þakklát fyrir að margfalda fylgi okkar, bæði hér og á landsvísu og þetta er mikill sigur, þótt við hefðum viljað hafa hann enn stærri, ekki síst í ljósi þess tækifæris sem við vorum búin að eygja á einhvers konar stjórnarmyndum. Nú virðist hún úr sögunni; nóttin er að vísu enn ung en mjög mikið þarf að breytast til þess að möguleiki verði á því.“

Sigurvegarar kosninganna, að mati Einars, eru VG, Sjálfstæðisflokkurinn og Viðreisn - og Píratar, sem fara úr 3 þingmönnum í 9, eins og staðan er. „Ég á kannski ekki að tala árangur okkar niður. Kannski á ég að vera mjög ánægður, en stemningin er samt svona vegna þess hve mikið við höfðum fengið í skoðanakönnunum. Við vorum með hátt í 40% í könnunum á sínum tíma og við erum fúl að fá svona miklu minna, en það er auðvitað aldrei neitt gefið í skoðanakönnunum. Niðurstaðan er óneitanlega súrsæt,“ sagði Einar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert