Einboðið að Bjarni fái umboðið

Kristján Þór Júlíusson og Njáll Trausti Friðbertsson, nýr alþingismaður Sjálfstæðisflokksins …
Kristján Þór Júlíusson og Njáll Trausti Friðbertsson, nýr alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra, á kosningavöku flokksins á Akureyri í kvöld. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Mjög góð stemning var á kosningavöku Sjálfstæðisflokksins á Akureyri í kvöld. Miðað við fyrstu tölur bætir flokkurinn við sig manni og fær þrjá. Þar af er einn nýliði, Njáll Trausti Friðbertsson, sem er í öðru sæti listans, Kristján Þór Júlíusson er efstur og Valgerður Gunnarsdóttir alþingismaður, sem lenti í þriðja sæti í prófkjöri flokksins, kemst á þing.

„Ég tek þessu fagnandi og er mjög þakklátur fyrir það traust sem okkur er sýnt og mjög þakklátur fólkinu sem hefur unnið með okkur. En ég legg áherslu á að þetta eru fyrstu tölur,“ sagði Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra og oddviti flokksins í kjördæminu, við mbl.is um klukkan hálfeitt í nótt.

Kristján segir niðurstöðuna ekki koma sér á óvart. „Við stefndum að þessu og ég hef fundið byr með framboðinu síðustu daga. Við erum einfaldlega að ná því markmiðið sem við settum okkur.“

Hvaða skýringar heldurðu að séu á góðu gengi Sjálfstæðisflokksins?

„Ég held það séu fyrst og fremst störf okkar á kjörtímabilinu og stefnumálin sem við leggjum áherslu á. Við erum með vel mannað framboð, sambland af mikilli reynslu og ungu fólki, með víða skírskotun í kjördæminu. Það eru margir þættir sem leggjast á sveifar með framboðinu.“

Þú talar um góð störf ykkar á kjörtímabilinu. Kanntu þá skýringu á slöku gengi Framsóknarflokksins, samstarfsflokks ykkar í ríkisstjórn?

„Eins og allir þekkja hefur Framsóknarflokkurinn gengið í gegnum gríðarlega mikil átök innan sinna vébanda og eðlilega hljóta slík átök að setja sitt mark á kosningabaráttuna og árangur í kosningum. Svo má ekki gleyma hinu að Framsóknarflokkurinn vann í síðustu kosningum sögulega stóran sigur og að sjáflsögðu getur verið mjög erfitt að halda í það fylgi. það kann að vera að ýmislegt skyggi á störfin, en það er hins vegar Framsóknarmanna að svara fyrir þetta.“

Ef þú rýnir í tölurnar, Kristján, sérðu fyrir þér ríkisstjórn?

„Nei, en ég tel einboðið að formaður okkar, Bjarni Benediktsson, fái umboð til ríkisstjórnarmyndunar ef þetta gengur eftir. Við höfum séð það á síðustu dögum þessar kosningabaráttu að sú ásýnd og sú festa og sú stefna sem hann hefur verið að kynna í umræðum leiðtoga stjórnmálaflokkanna hefur höfðað til fólks og á greiðan aðgang í kjörklefann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert