Gat ekki hafnað tækifærinu

Ari Trausti Guðmundsson er nýr þingmaður Vinstri grænna.
Ari Trausti Guðmundsson er nýr þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér líst ákaflega vel á þetta. Ég fór út í þetta því mig langaði að prófa og gera mig gildandi og þá er maður náttúrlega voðalega ánægður þegar maður er kominn svona langt,“ segir Ari Trausti Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, rithöfundur og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, sem kemur inn sem nýr þingflokksmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Ari er sá elsti sem mun setjast á þing á kjörtímabilinu en hann er fæddur 3. desember árið 1948, og verður því 68 ára gamall í desember.

Ari hefur hingað til ekki tekið þátt í flokkspólitík, en hann segist ekki hafa geta hafnað því tækifæri sem honum bauðst fyrir kosningarnar. „Það hefur verið ámálgað við mig langt aftur í tímann að koma inn í flokka. Ég hef svo sem alltaf neitað því og viljað vera óháður og verkefnatengdur lausamaður þangað til núna þegar það var stungið upp á þessu. Mér fannst það ágætis tækifæri. Ég mátaði mig einu sinni við forsetann svo ég hef alltaf haft brennandi áhuga á samfélagsmálum og þetta er góður vettvangur,“ segir hann.

Lengi verið kallaður vinstrisinnaður

„Ég hef verið kallaður vinstrisinnaður frá því ég var í námi í Noregi fyrir hátt í 50 árum og svo hafa umhverfismálin verið mitt stóra áhugamál að mörgu leyti. Nú er ég að sameina þetta og það eru svo sem ekki mikið um annan vettvang en þennan,“ segir hann. 

Ari hef­ur meðal ann­ars sinnt rann­sókn­ar­störf­um, blaðamennsku, ráðgjöf, kennslu, leiðsögn og ferðaþjón­ustu í gegn­um tíðina auk þess að hafa sinnt fjöl­breytt­um ritstörf­um og dag­skrár­gerð fyr­ir sjón­varp og út­varp. Hann var í fram­boði til embætt­is for­seta Íslands árið 2012 og varð þar í þriðja sæti. Þá hefur hann tekið þátt í fjölmörgum verkefnum sem telja mætti pólitísk, og skrifar pólitískar greinar.

Nýr þingflokkur VG, Steingrímur J. Sigfússon, Andrés Ingi Jónsson, Katrín …
Nýr þingflokkur VG, Steingrímur J. Sigfússon, Andrés Ingi Jónsson, Katrín Jakobsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Svandís Svavarsdóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir og Kolbeinn Óttarsson Proppé. Pressphoto.is

Réðst ekki á garðinn þar sem hann var lægstur

Spurður um það hvort niðurstaðan hafi komið á óvart segir Ari svo ekki vera. „Um leið og ég var farinn af stað þá var ég býsna öruggur um að þetta gengi upp. Ég þekki kjördæmið vel, hef verið að vinna þarna í jarðvöngum, auðlindastefnu fyrir sveitarfélag, búið til ótal sjónvarpsþætti á Suðurlandi, skipt mér af landgræðslumálum, verið fararstjóri og ég veit ekki hvað og hvað. Þannig að ég taldi mig vera í sterkri stöðu sem kom svo á daginn,“ segir hann.

Ari Trausti er eini þingmaður VG í Suðurkjördæmi, en það er tvöföldun á fylgi frá því á síðasta kjörtímabili. „Það vita allir sem hafa fylgst með pólitík að Suðurkjördæmi fyrir Vinstri græna er erfitt og núna vorum við þingmannslaus svo ég var ekkert að ráðast á garðinn þar sem hann var lægstur. En okkur tókst, og ég var auðvitað alls ekki einn í því, að tvöfalda fylgið. Það var aldrei neinn vafi eftir fyrstu tölur að ég var kjördæmakjörinn en það var alltaf spurning með næsta mann á eftir, en hann kom ekki núna. En ég vissi það alveg þegar ég sagði já við að setjast þarna á lista hvað ég var að gera.“

VG í verulegri ábyrgðarstöðu

Þing­flokk­ur Vinstri grænna kom sam­an til fund­ar klukk­an 15 í Alþing­is­hús­inu. Ari segir að um hafi verið að ræða hefðbundinn þingflokksfund þar sem farið var yfir stöðuna. „Við vorum að velta fyrir okkur ýmsu og svo kemur það bara í ljós hvert þetta fer,“ segir hann og bætir við að ríkisstjórn verði sennilega ekki mynduð á næstu dögum. „Þetta er flókin staða með öðrum orðum. Við eigum eftir að sjá hvað kemur upp úr kössunum í seinna sinnið. Við erum búin að sjá hvað kom upp úr kjörkössunum og nú er að sjá hvað kemur upp úr þessum eina kassa.“

Þá segir Ari að sér lítist vel á þingflokkinn. „Þetta er flott aldursdreifing og það hallar svo sannarlega ekki á konur, og reyndar ekki á þinginu almennt,“ segir hann, en alls náðu 30 konur kjöri, sem er það mesta frá lýðveldisstofnun. „Hvað fylgið snertir erum við annar stærsti flokkurinn og kannski sá eini sem er málsvari félagshyggju og vinstristefnu með eitthvert afl. Við erum í verulegri ábyrgðarstöðu.“

Ari segir flokkinn vonast til þess að fá umboð til stjórnarmyndunar, en ekkert sé í hendi hvað það varðar. „Auðvitað gerir maður gagn á báðum stöðum en það er meira keppikefli að vera í ríkisstjórn. En á þessari stundu myndi enginn geta spáð um það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert