Hefði átt að þvo vinstristimpilinn af

Frá vinstri: Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Smári McCarthy og …
Frá vinstri: Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Smári McCarthy og Birgitta Jónsdóttir. Ljósmynd/Pressphotos.biz

Forsvarsmenn Pírata segja niðurstöðu alþingiskosninganna góða í ljósi aðferðanna sem beitt var í kosningabráttunni og að meiri áherslu hefði átt að leggja á að þvo vinstristimpilinn af kosningabandalaginu. 

Boðað var til blaðamannfundar í kosningamiðstöð Pírata um þrjúleytið í dag og var hann haldinn á ensku fyrir erlenda blaðamenn sem höfðu fjölmennt. Fyrir hönd Pírata mættu Birgitta Jónsdóttir, Smári McCarthy, Halldóra Mogensen og Björn Leví Gunnarsson. 

Birgitta Jónsdóttir sagðist vera ánægð með niðurstöðu kosninganna því Píratar hefðu þrefaldað stuðninginn á stuttum tíma. Björn Leví bætti við að flokkurinn hefði haft besta hlutfallið af kjósendum sem kusu hann einnig í kosningunum 2013 og flokkurinn væri því byggður á sterkum grunni. 

Umræðan vék að kosningabaráttunni og einkennum hennar. Að þeirra mati var oft lagst lágt í gagnrýni á Pírata þar sem reynt hefði verið að draga upp ranga mynd af flokknum og frambjóðendum. 

Þá talaði Birgitta Jónsdóttir um að líklega hefði átt að bregðast fyrr við vinstristimplinum sem kosningabandalagið fékk á sig. Píratar væru miðjuflokkur sem pössuðu illa við hinar hefðbundnu skilgreiningar um vinstri og hægri í stjórnmálum. 

Ekki var farið djúpt í hugmyndir um stjórnarmyndun en tekið var enn og aftur fram að Píratar færu ekki í stjórn með Sjálfstæðisflokknum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert