Hverjir eru nýju þingmennirnir?

Nýir þingmenn taka sæti úr öllum flokkum.
Nýir þingmenn taka sæti úr öllum flokkum. mbl.is/Samsett mynd

24 taka sæti í fyrsta sinn á Alþingi þegar það kemur saman á nýju kjörtímabili. Píratar og Viðreisn eiga sjö nýja þingmenn hvor og Sjálfstæðisflokkurinn sex. Fjórir nýir koma inn hjá Vinstri grænum, Björt framtíð tvo og Framsóknarflokkurinn einn.

Sjá einnig - frétt mbl.is: Reynsluboltar hverfa af þingi

mbl.is tók saman helstu upplýsingar um nýju þingmenn okkar Íslendinga. Í samantektinni eru aðeins þingmenn sem koma til með að taka sæti í fyrsta skipti, ekki þingmenn sem hafa tekið sæti á þingi sem varaþingmenn.

Sjálfstæðisflokkurinn

Páll Magnússon.
Páll Magnússon. mbl.is/Rax

Í hópi nýrra þingmanna Sjálfstæðisflokksins hafa fimm þeirra verið áberandi í flokksstarfinu undanfarin ár en einn þeirra ekki, það er Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri og fjölmiðlamaður. Páll er fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari flokksins, tekur sæti fyrir Reykjavíkurkjördæmi norður.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Haakon Broder Lund

 Þau Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Teitur Björn Einarsson störfuðu sem pólitískir aðstoðarmenn ráðherra Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili, Þórdís fyrir Ólöfu Nordal innanríkisráðherra og Teitur Björn fyrir Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

Teitur Björn Einarsson og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir.
Teitur Björn Einarsson og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir. mbl.is/Samsett mynd

Þau sitja bæði á þingi fyrir Norðvesturkjördæmi, Þórdís Kolbrún er fjórði þingmaður kjördæmisins og Teitur Björn sjöundi þingmaður.

Þá hafa þau Njáll Trausti Friðbertsson, fjórði þingmaður Norðausturkjördæmis, og Bryndís Haraldsdóttir, annar þingmaður Suðvesturkjördæmis, setið í sveitarstjórnum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Bryndís í Mosfellsbæ og Njáll Trausti á Akureyri.

Njáll Trausti og Bryndís Haraldsdóttir.
Njáll Trausti og Bryndís Haraldsdóttir. mbl.is/Samsett mynd

Vinstrihreyfingin - grænt framboð

Vinstri grænir bæta við sig þremur nýjum þingmönnum. Ari Trausti Guðmundsson, jarðfræðingur og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, tekur sæti fyrir Suðurkjördæmi. Þá bætist fjölmiðlamaðurinn Kolbeinn Óttarsson Proppé, sem var áður upplýsingafulltrúi Strætó Bs. og blaðamaður á Fréttablaðinu, í hóp þingmanna flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður. 

Ari Trausti Guðmundsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Andrés Ingi Jónsson.
Ari Trausti Guðmundsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Andrés Ingi Jónsson. mbl.is/Samsett mynd

Andrés Ingi Jónsson er þriðji nýliðinn á þingi í hópi Vinstri grænna en hann er stjórnmálafræðingur að mennt og starfaði áður sem aðstoðarmaður Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra og Álfheiðar Ingadóttur heilbrigðisráðherra. Um tíma var hann blaðamaður á 24 stundum en margir þeirra sem setjast á þing hafa starfað við fjölmiðla um tíma.

Píratar

Píratar bæta alls við sig sex þingmönnum frá síðustu kosningum. Ásta Guðrún Helgadóttir og Birgitta Jónsdóttir halda báðar áfram en Helgi Hrafn Gunnarsson hættir á þingi og ætlar að einbeita sér að innra starfi flokksins. Koma því sjö nýir þingmenn inn hjá flokknum, þar af sex sem hafa ekki tekið sæti áður á þingi.

Smári McCarthy, þingmaður Pírata.
Smári McCarthy, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flokkurinn fær inn nýjan þingmann úr fimm kjördæmum, öllum kjördæmum nema Reykjavíkurkjördæmi norður. Þar koma þó inn tveir nýir þingmenn en bæði tóku þau sæti á þingi á síðasta kjörtímabili sem varaþingmenn.

Í Norðvesturkjördæmi kemur inn Eva Pandora Baldursdóttir, viðskiptafræðingur í MPA námi í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Fyrir Norðausturkjördæmi tekur sæti í fyrsta sinn á þingi Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, framhaldsskólakennari við Menntaskólann á Akureyri.

Uppi: Eva Pandora Baldursdóttir (t.v.) og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (t.h.). …
Uppi: Eva Pandora Baldursdóttir (t.v.) og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (t.h.). Niðri: Gunnar Hrafn Jónsson (t.v.) og Einar Aðalsteinn Brynjólfsson (t.h.). mbl.is/Samsett mynd

Þá tekur Smári McCarthy sæti á þingi fyrir Suðurkjördæmi og fyrir Suðvesturkjördæmi Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, alþjóða- og mannréttindalögfræðingur frá frá háskólanum í Utrecht. Hún er búsett í Mosfellsbæ.

Gunnar Hrafn Jónsson, fyrrverandi fréttamaður á Ríkisútvarpinu, tekur sæti fyrir Reykjavíkurkjördæmi suður.

Viðreisn

Viðreisn fékk samtals sjö þingmenn kjörna og taka þeir allir sæti á Alþingi í fyrsta sinn nema einn, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í rúman áratug fyrir Sjálfstæðisflokkinn og var menntamálaráðherra 2003–2009.

Hanna Katrín Friðriksson, Þorsteinn Víglundsson og Benedikt Jóhannesson.
Hanna Katrín Friðriksson, Þorsteinn Víglundsson og Benedikt Jóhannesson. mbl.is/Samsett mynd.

Jóna Sólveig Elínardóttir, aðjunkt við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, tekur sæti á þingi fyrir Suðurkjördæmi. Jón Steindór Valdimarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sest á þing fyrir Suðvesturkjördæmi í jöfnunarsæti. 

Fyrir Reykjavíkurkjördæmi suður setjast á þing í fyrsta sinn þau Hanna Katrín Friðriksson, framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs Icepharma, og í jöfnunarsæti Pawel Bartoszek stærðfræðingur. Frá Reykjavíkurkjördæmi suður sest á þing í fyrsta sinn Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og formaður Viðreisnar, Benedikt Jóhannesson, sest á þing í fyrsta sinn fyrir Norðausturkjördæmi.

Jóna Sólveig Elínardóttir, Jón Steindór Valdimarsson og Pawel Bartoszek.
Jóna Sólveig Elínardóttir, Jón Steindór Valdimarsson og Pawel Bartoszek. mbl.is/Samsett mynd.

Björt framtíð

Tveir nýir þingmenn taka sæti fyrir Bjarta framtíð á komandi þingi. Úr Reykjavíkurkjördæmi suður tekur sæti Nichole Leigh Mosty. Hún fæddist árið 1972 í smábæ í Michigan, Bandaríkjunum, en fluttist hingað til lands árið 1999. Hún er menntaður leikskólakennari og er formaður íbúasamtaka Breiðholts.

Nichole Leigh Mosty (t.v.) og Theodóra S. Þorsteinsdóttir (t.h.).
Nichole Leigh Mosty (t.v.) og Theodóra S. Þorsteinsdóttir (t.h.). mbl.is/Samsett mynd

Theodóra S. Þorsteinsdóttir tekur einnig sæti fyrir Bjarta framtíð en hún hefur verið í bæjarpólitík í Kópavogi fyrir sama flokk. Hún er oddviti flokksins sem er í meirihluta í bæjarstjórn ásamt Sjálfstæðisflokknum.

Framsóknarflokkur og Samfylkingin

Lilja Dögg Alfreðsdóttir.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framsóknarflokkur og Samfylkingin fá hvor um sig einn nýjan þingmann. Guðjón S. Brjánsson tekur sæti fyrir Samfylkinguna í norðvesturkjördæmi og Lilja Dögg Alfreðsdóttir fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjavíkurkjördæmi suður. Lilja Dögg er Íslendingum ekki ókunn en hún kom ný inn í ríkisstjórnina á vordögum þessa árs. Hún hefur aftur á móti aldrei gegnt þingmennsku.

Guðjón S. Brjánsson kemur nýr á þing fyrir Samfylkinguna.
Guðjón S. Brjánsson kemur nýr á þing fyrir Samfylkinguna. mbl.is

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert