Stórsigur Bjarna Benediktssonar

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segist vilja halda öllum möguleikum opnum.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segist vilja halda öllum möguleikum opnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum að hittast í kjölfar kosninganna til að bera saman bækur okkar og fallast í faðma og fagna árangrinum líka,“ segir Bjarni Bene­dikts­son, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, en þingflokkurinn fundar nú í Valhöll.

„Það eru að koma ný andlit inn í þingflokkinn. Mér fannst gott að nota þennan dag aðeins til að stilla saman strengi, en engar ákvarðanir liggja fyrir fundinum. Það má segja að þetta verði okkar kaffibollafundur.“

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fundar nú í Valhöll.
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fundar nú í Valhöll. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hlaut 29% at­kvæða og verður með 21 þing­mann á þingi á næsta kjör­tíma­bili. Spurður um mögulega stjórnarmyndun segist Bjarni ekki hafa viljað útiloka neitt, en hann hefur þó gefið út að flokkurinn muni ekki vinna með Pírötum. „En ég geng á fund forsetans á morgun og við sjáum hvað spilast úr framhaldinu,“ segir hann.

Hildur Sverrisdóttir og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir eru ánægðar með niðurstöðu …
Hildur Sverrisdóttir og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir eru ánægðar með niðurstöðu kosninganna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér líður frábærlega,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins, sem kemur ný inn í þingflokkinn. „Þetta er auðvitað stórsigur Bjarna Benediktssonar og það sést á öllu að hann vann stóran persónulegan sigur. Við erum bara alsæl með niðurstöðuna og förum brosandi inn í næstu daga.“

„Þetta er auðvitað mjög skýrt. Þessum stjórnarmyndunarviðræðum stjórnarandstöðuflokkanna var hafnað og það er alveg ljóst að Bjarni Benediktsson á að fá stjórnarmyndunarumboðið,“ segir hún.

Spurð um það sem rætt verður á fundinum segir hún að farið verði yfir stöðuna auk þess að kætast yfir niðurstöðunum. „Við ætlum bara að hitta nýjan þingflokk sem er fullur af nýju og öflugu fólki. Það er margt af ungu fólki sem er mjög skemmtilegt,“ segir hún og nefnir sem dæmi Teit Björn Einarsson og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð sem koma ný inn í þingflokkinn og Hildi Sverrisdóttur sem er fyrsti varaþingmaður í Reykjavíkurkjördæmi suður. 

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingflokksmaður Sjálfstæðisflokksins.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingflokksmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðlaug­ur Þór Þórðar­son, þingflokksmaður Sjálfstæðisflokksins, segir niðurstöðuna vera framar björtustu vonum. „Það er mjög skynsamlegt að hittast og fara yfir stöðuna. Hlutirnir gerast oft hratt við þessar aðstæður svo það er gott að bera saman bækur. Við skulum vona að það verði bjart framundan,“ segir hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert