Vaknaði sem þingmaður

Jón Steindór Valdimarsson, þingflokksmaður Viðreisnar.
Jón Steindór Valdimarsson, þingflokksmaður Viðreisnar.

„Þetta var óneitanlega svolítið sérkennilegt,“ segir Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, sem í morgun vaknaði upp við skilaboð þess efnis að hann væri orðinn þingmaður. Þegar Jón hafði farið að sofa um klukkan hálffjögur í nótt taldi hann nánast útilokað að hann kæmist inn á þing.

„Ég var nánast búinn að gefa þetta frá mér þegar ég hvarf frá um klukkan hálffjögur í nótt og hafði ekki séð mig enda í neinu samhengi í kosningasjónvarpinu,“ segir Jón, en skilaboðin bárust frá meðframbjóðanda hans sem hafði vakað lengur. „Ég auðvitað rauk á fætur og fór að skoða þetta í fjölmiðlum og sannfærðist um að þetta væri rétt. Þetta var óneitanlega dálítið skemmtileg morgungjöf.“

Jón sest á þing fyr­ir Suðvest­ur­kjör­dæmi í jöfn­un­ar­sæti. 

Spenntur en örlítið kvíðinn

Jón segir að margir hafi reynt að stappa í hann stálinu í nótt og sagt honum að hann ætti enn möguleika, en hann hafði ekki mikla trú á því. Hann segist þó afar ánægður með niðurstöðuna og er spenntur fyrir nýja starfsvettvanginum.

„Þetta verður bara mjög skemmtilegt, ég er sannfærður um það. Fyrir mig er þetta nýr vettvangur svo maður er bæði spenntur og örlítið kvíðinn um hvernig manni tekst að vinna á þessum nýja stað, sem er óneitanlega öðruvísi vinnustaður en maður er vanur,“ segir Jón.

Hitti þingflokkinn í dag

Jón starfaði lengi sem framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins en hefur verið sjálfstætt starfandi með lítið sprotafyrirtæki síðustu ár. „Ég er vanur að vinna með fólki, og þetta hefur verið mjög skemmtilegur tími. Ég hef komið að því að búa Viðreisn til og það hefur verið mjög skemmtilegt og gefandi að vinna með góðu fólki að góðum málefnum.“

Aðspurður segir Jón að þingflokkurinn hafi hist í dag til að taka fyrstu stöðu og samfagna „Það voru allir mjög kátir og glaðir. Við föðmuðumst og kysstumst eins og í fínni fermingarveislu,“ segir Jón og hlær.

Skoða ýmsa möguleika

Eins og fram hefur komið er Viðreisn í lykilstöðu, en flokkurinn fékk sjö menn kjörna á þing og hefur horft til beggja hliða þegar kemur að stjórnarmyndunarviðræðum. „Við náðum auðvitað góðum árangri og eins og þetta er að teiknast upp þá virðumst við geta haft talsverð áhrif á það hvernig þetta fer. Við verðum að vanda okkur vel í því svo við fáum góða stjórn og góð málefni í gegn svo þetta er mjög spennandi.“

Jón segir þingflokkinn hafa farið yfir möguleikana í stöðunni á fundinum í dag. „Við stilltum upp ýmsum möguleikum. Menn voru að spá og spekúlera en það voru engar ályktanir samþykktar. Formaðurinn okkar fer að hitta forsetann á morgun og svo fer þetta allt saman af stað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert