Fimm flokka stjórn enn í forgangi

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, ræðir stutt við fréttamenn á …
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, ræðir stutt við fréttamenn á leiðinni inn á Bessastaði. mbl.is/Árni Sæberg

„Okkar fyrsta val er að reyna við myndun fimm flokka meirihlutastjórnar og ég er enn þeirrar skoðunar en ég útiloka þetta ekki,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna í samtali við mbl.is þegar hún var spurð um nýjasta útspil Pírata.

Frétt mbl.is: Vilja styðja minnihlutastjórn

Píratar tilkynntu um hádegið í dag tillögu sína um að mynduð yrði minni­hluta­stjórn Vinstri-grænna, Viðreisn­ar og Bjartr­ar framtíðar sem studd yrði af Pír­öt­um og Sam­fylk­ing­unni. 

Katrín ræddi við Guðna Th. Jóhannesson forseta í dag og segist hafa lagt til að Vinstri græn komi að myndun ríkisstjórnar í ljósi kosningaúrslitanna. 

„Ég sagði við forsetann að við værum tilbúin að taka þátt í eða leiða myndun slíkrar ríkisstjórnar. Það fyndist mér eðlilegt framhald vegna þess að ef við skoðum úrslit kosninganna þá er meirihluti kjósenda sem kýs breytingar þó það skiptist ekki með skýrum hætti á ákveðna blokk en við útilokum ekki þessa hugmynd.“

Spurð hvort hugmyndir Pírata um minnihlutastjórn væru ákjósanlegri kostur heldur en samstarf með Sjálfstæðisflokknum eða Framsókn svaraði Katrín að staðan yrði tekin þegar ákvörðun forseta lægi fyrir. 

„Fyrsta val okkar er að reyna að mynda stjórn frá miðju inn á vinstri. Við höfum lagt þessa leið til og þangað til annað kemur í ljós er það okkar stefna. Svo eigum við bara eftir að sjá hver niðurstaða forsetans verður og við tökum stöðuna þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert