Vantar 66 milljarða næstu fimm ár

Mikið gap er milli þeirra upphæða sem stjórnvöld áætla til …
Mikið gap er milli þeirra upphæða sem stjórnvöld áætla til Landspítalans næstu fimm ár og fjárþarfar spítalans samkvæmt útreikningum stjórnenda hans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Uppsöfnuð viðbótarfjárþörf Landspítalans næstu fimm ár nemur alls 66,3 milljörðum króna, miðað við fjárlög 2016 og fjármálaáætlun fráfarandi ríkisstjórnar fyrir árin 2017-2021. Páll Matthíasson, forstjóri spítalans, hefur fundað með formönnum þeirra sjö flokka sem náðu inn þingmanni í alþingiskosningunum um helgina og greint þeim frá niðurstöðunni.

Þess ber að geta að fundirnir áttu sér stað áður en gengið var til kosninga en umrædd áætlun var samþykkt 18. ágúst sl.

Meðal þess sem Landspítalinn telur ófjármagnað á næstu fimm árum er eftirspurnaraukning vegna mannfjöldaþróunar, samtals 18,9 milljarðar, tæki og búnaður vegna nýja Landspítalans, 6,5 milljarðar, og lágmarksviðhald, 5,6 milljarðar, svo eitthvað sé nefnt.

Framlag ríkisins til Landspítalans árið 2016 nemur 51 milljarði króna, samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum.

Spurður að því hvað veldur þessu vanmati á fjárþörf spítalans segist Páll ekki kunna skýringu á því.

„Við höfum náttúrlega sagt mjög lengi að það þurfi að fjármagna heilbrigðisþjónustuna með öðrum hætti en þessi áætlun gerir ráð fyrir,“ segir hann. „En ég get ímyndað mér að svigrúmið hafi aukist síðan þessi áætlun var gerð snemma á þessu ári, geri ráð fyrir því reyndar, því hún var unnin löngu áður en hún var samþykkt. En það verða aðrir, sem bera ábyrgð á þeirri áætlun, að svara því.“

Tafla/Landspítalinn

Páll fundaði, sem fyrr segir, með leiðtogum stjórnamálaflokkanna sjö sem náðu manni inn á þing, og upplýsti þá um stöðu mála.

„Mér fannst viðbrögðin almennt vera góð. Menn voru að hlusta og reyna að skilja hvað lægi að baki okkar tölum og okkar þörf,“ segir hann.

Páll segist ekki hafa talið að þörf væri á að ræða málið frekar fyrir kosningar heldur „frekar þegar kosningar væru afstaðnar og komið að því að þeir sem hefðu fengið brautargengi færu að hugsa til framtíðar.“

En slógu samtölin á áhyggjur af stöðu mála? Verður þessu bjargað?

„Það er ekki mitt að svara því,“ segir Páll. „Ég vona það svo sannarlega, heilbrigðis þjóðarinnar vegna.“

Hann segir þá liði sem taldir eru til á yfirliti yfir viðbótarfjárþörf spítalans allt nauðsynlega útgjaldaliði.

„Þetta er það allt saman, og frekar hóflega útreiknað margt af þessu. Við hefðum getað verið með mun hærri tölur án þess að það væri hægt að gagnrýna það að við værum að reikna um of. Þarna erum við svona frekar að taka hóflegan pól í hæðina myndi ég segja, miðað við þörfina.“

Þess ber að geta að samkvæmt fimm ára fjármálaáætlun stjórnvalda verður 77 milljörðum varið í sjúkrahúsþjónustu árið 2017, 82 milljörðum árið 2019 og 91 milljarði árið 2021.

Útreikningar Landspítalans varðandi viðbótarfjárþörfina á þessum árum miðast við hlutdeild spítalans í útgjöldum ríkisins vegna málaflokksins árið 2016.

Páll Matthíasson, forstjóri LSH.
Páll Matthíasson, forstjóri LSH. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert