Ætlar að ræða við alla formenn í dag

Bjarni ræðir við fjölmiðla á Bessastöðum í dag.
Bjarni ræðir við fjölmiðla á Bessastöðum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar að reyna að ræða í dag við formenn allra flokka sem fengu þingmenn kjörna. Hann ætlar ekki að útiloka neina valkosti fyrir fram og að það muni ráðast af þessum samtölum hvaða flokkar séu fyrstu valkostir í mögulegu stjórnarsamstarfi. Þetta kom fram á fjölmiðlafundi á Bessastöðum í dag þar sem Bjarni svarði spurningum fjölmiðlamanna í kjölfar þess að hann fékk umboð frá forseta Íslands.

Sagði Bjarni að hann myndi nýta tímann vel, hver dagur skipti máli í þessum viðræðum, meðal annars þar sem þing þyrfti að koma saman til að ganga frá fjárlögum.

Sagði Bjarni að undanfarnir dagar hefðu leitt það í ljós að forsvarsmenn flokka væru að verða afslappaðri en strax eftir kosningar. Benti hann á að sumir hefðu sagt að þeir vildu breiðara samstarf, en í leiðinni útilokuðu þeir aðra flokka. Þetta þætti honum merkileg sýn.

Bjarni var spurður út í meirihlutaviðræður og líklegustu ríkisstjórn, meðal annars hvort hann myndi skoða stjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, en það yrði 32 manna stjórn, sem er minnsti mögulegi meirihluti. Sagði hann það augljóslega einn möguleika en að það væri mjög knappur meirihluti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert