Engar formlegar viðræður ennþá

Lilja Dögg Alfreðsdóttir.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ekkert í hendi og menn eru bara að bera saman bækur sínar og hvað væri hugsanlega hægt að gera og hvað sameinar fólk,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, spurð tíðinda af umræðu um ríkisstjórnarmyndun.

Hún segir fólk aðeins vera að ræða saman, engar formlegar viðræður hafi verið haldnar eða fundir en Framsóknarmenn séu í góðu sambandi við Sjálfstæðisflokkinn og aðra flokka einnig.

„Þetta mun snúast um traust fyrst og síðast, traust og hvort fólk hafi reynslu,“ segir Lilja, en helgin fari svolítið í það að undirbúa hvar hægt sé að ná saman varðandi málefni.

Komnir í helgarfrí

Í svipaðan streng tekur Eva Einarsdóttir, stjórnarformaður Bjartrar framtíðar, en hún segir lítið sem ekkert nýtt vera að frétta hvað varðar stjórnarmyndunarviðræður. „Það virðist sem svo að flestir hafi bara farið aðeins í helgarfrí, enda síðasta helgi viðburðarík þannig að það er í rauninni ekkert breytt í stöðunni sem stendur,“ segir Eva en hún gerir ráð fyrir að fólk haldi áfram að ræða málin eftir helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert