Hefur ekki fengið hótanir

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég gerði Bjarna grein fyrir því að ég teldi mjög ólíklegt að árangur næðist úr viðræðum okkar. Að öðru leyti ætla ég ekki að vitna í tveggja manna tal okkar,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, í samtali við mbl.is.

Í frétt Morgunblaðsins í dag kemur fram að Katrín hafi gefið Bjarna afsvar um að hefja viðræður við hann og Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins, um myndun þriggja flokka ríkisstjórnar.

Katrín hló þegar hún var spurð hvað hún myndi gera ef Bjarni myndi hringja í dag eða á morgun og vildi hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður með VG og öðrum flokki:

„Ef það kemur formlegt tilboð um stjórnarmyndunarviðræður tökum við það auðvitað formlega fyrir innan þingflokksins.

Katrín segir að henni hafi ekki verið hótað vegna málsins en fjallað hefur verið um að ungliðahreyfing og grasrót VG hafi alls ekki viljað fara í viðræður við Sjálfstæðisflokkinn:

„Það er öllum ljóst hvernig við höfum farið yfir afstöðu okkar í þessu máli. Við höfum haldið því til haga mjög lengi að það er mjög langt á milli þessara tveggja flokka. Það er ekkert úr lausu lofti gripið en ég hef engar hótanir fengið. Það er heilmikil umræða en allavega hef ég engar hótanir fengið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert