Ákvörðun liggi fyrir í dag

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna. mbl.is/Golli

„Ég lagði til að við færum áfram í formlegar viðræður og myndum setja niður málefnahópa til að setja niður málefnin og kanna hvort það sé sameiginlegur grundvöllur til að byggja á ríkisstjórnarsamstarf fimm ólíkra flokka,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, við mbl.is.

Fulltrúar fimm flokka, Vinstri-grænna, Bjartrar framtíðar, Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata, funduðu í Alþingishúsinu í dag um mögulegt stjórnarsamstarf flokkanna. Áður höfðu flokkarnir fundað í gær en Katrín Jakobsdóttir fékk umboð til stjórnarmyndunar á miðvikudaginn.

Ákvörðun um formlegar viðræður liggi fyrir seinna í dag

„Það liggur alveg fyrir að þetta eru ólíkir flokkar, þeir liggja ólíkt á hefðbundna pólitíska skalanum frá vinstri til hægri. En það er líka vilji til að láta á það reyna hvort við getum fundið sameiginlegar lausnir. Þá verður vinnan þannig að ef þingflokkarnir eru allir sammála um þetta þá munum við halda áfram um það. Þá munum við í framhaldinu meta hvort það er grundvöllur til að meta ríkisstjórn þessara fimm flokka,“ segir Katrín enn fremur en þingflokkar áðurnefndra fimm flokka ræða málin hver í sínu lagi síðdegis í dag og eftir það verður endanlega ákveðið hvort flokkarnir fari í formlegar viðræður.

Þar með er björninn ekki unninn en þá á eftir að ræða mörg stór mál,“ segir Katrín og bætir við að staðan sé um margt óvenjuleg:

„Ég held að við þurfum öll að sætta okkur við að það er óvenjuleg staða í pólitíkinni, það er ekki einhver einn sem getur fengið sínu fram eða ráðið öllu. Við erum allt einstaklingar að fást við aðstæður sem við höfum ekki kynnst persónulega á Alþingi,“ segir formaður VG en hún kveðst vera hæfilega bjartsýn:

Mér finnst allir vera af fullum heilindum í því að láta á þetta reyna. Á sama tíma er fólk raunsætt á að björninn er ekki unninn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert