Píratar funda um utanþingsráðherra

Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Píratar halda félagsfund á föstudagskvöld þar sem lögð verður fram tillaga um að breyta samþykkt flokksins á reglum um þingmennsku og að gegna ráðherraembætti á sama tíma. Þetta segir Mörður Ingólfsson, pírati. Ekkert annað mál er á dagskrá fundarins.

Frétt mbl.is: Þyrftu að segja af sér þingmennsku

„Mjög mikill ruglingur“

Helgi Hrafn Gunnarsson, pírati, segir í samtali við mbl.is að orðið „utanþingsráðherra“ sé villandi í þeirri umræðu sem hefur verið uppi um málið.

„Það er engin stefna hjá okkur að þingmenn verði ekki ráðherrar heldur að þeir séu ekki þingmenn á sama tíma og þeir verði ráðherrar. Við erum ekkert líklegri heldur en aðrir held ég til þess að velja ráðherra úr öðrum röðum heldur en þingmönnum. Það er ekkert í stefnu okkar um það. Það hefur verið mjög mikill ruglingur á þessu og erfitt að halda þessum greinarmun til haga,“ greinir Helgi Hrafn frá.

Sjálfsagt að ráðherrar stígi til hliðar

Hann kveðst ekki hafa heyrt neinn stinga upp á því að tekin verði til baka sú krafa að ráðherrar Pírata stígi til hliðar á þingi á meðan þeir eru á ráðherrastól. „Hins vegar er það sem er núna að standa í mönnum að þetta eru umræður þar sem fimm flokkar koma saman og mér skilst að hinir flokkarnir séu ekki til í það af einhverjum ástæðum. Mér finnst það sjálfsögð krafa. Ég skil ekki hvers vegna menn vilja ekki hafa þetta þannig að ráðherra stígi til hliðar sem þingmenn á meðan menn eru ráðherrar.“

Að sögn Helga Hrafns er stefna flokksins núna sú að ef Píratar ætli að vera í stjórn varði þetta ákvæði líka aðra flokka. Kosið verður um hvort því verður breytt á föstudaginn, þannig að ákvæðið gildi aðeins fyrir Pírata.

Píratar á leið á fund forsetans í lok október.
Píratar á leið á fund forsetans í lok október. mbl.is/Árni Sæberg

Snúin staða 

Hann segir að mörgum finnist ósanngjarnt að krafan gildi um aðra flokka líka. Helgi er ekki á sama máli. „Þegar stefnan var sett þá sá maður ekki fyrir að það væri í aðstæðum þar sem verið væri að reyna að koma á fimm flokka stjórn eftir að viðræður þriggja flokka hefðu mistekist. Það er sú staða sem gerir þetta svo snúið. Ef þetta væru viðræður tveggja flokka þá væri kannski ekkert mál að halda þessu til streitu.“

Bendir á frumvarp stjórnlagaráðs

Helgi Hrafn bendir á að í 89. grein  frumvarps stjórnlagaráðs sé sú regla að ráðherrar víki af þingi á meðan þeir eru ráðherrar. „Það er inni í stefnunni okkar  hvort sem er. Stefnan okkar breytist ekki í sjálfu sér heldur bara það hvort við krefjum aðra flokka um þessi annars sjálfsögðu vinnubrögð í þessum stjórnarmyndunarviðræðum,“ segir hann og telur regluna eiga að vera í stjórnarskrá. Ekki skuli byggja hana á hefð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert