„Það er búið að berja kennara nóg“

Frá fundinum í dag.
Frá fundinum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Ekki meir, ekki meir. Það er búið að berja kennara nóg,“ sagði Bergljót Ingvadóttir, kennari í Varmárskóla í Mosfellsbæ. Vitnaði hún í grein eftir óþekktan höfund en greinin birtist í Morgunblaðinu 1984.

Grunnskólakennarar úr Mosfellsbæ gengu úr skólum klukkan 13.30 og hittust í framhaldi af því í matsalnum í Framhaldsskóla Mosfellsbæjar og ræddu sín mál. Með þessu vilja þeir und­ir­strika kröf­ur sín­ar í yf­ir­stand­andi kjaraviðræðum stétt­ar­inn­ar við sveit­ar­fé­lög­in.

Samn­inga­nefnd Fé­lags grunn­skóla­kenn­ara og Sam­bands sveit­ar­fé­laga hafa fundað hjá rík­is­sátta­semj­ara síðustu daga en kennarar hafa nú þegar fellt tvo samninga.

Ofbýður launahækkun þingmanna

Bergljót bætti því við að hún hefði kennt frá árinu 1977 og það hefði ekkert þokast í kjaramálum kennara síðan þá. Kennarar væru ekki eina stéttin sem ofbýður launahækkun alþingismanna en það var kornið sem fyllti mælinn hjá mörgum kennurum.

„Næsta uppreisn í samfélaginu verður hjá láglauna menntafólki. Ég vona það alla vega. Við þurfum að standa á okkar kröfum og sýna sterkan vilja og samstöðu,“ sagði Bergljót.

Kennarar í Mosfellsbæ ræddu næstu skref.
Kennarar í Mosfellsbæ ræddu næstu skref. mbl.is/Árni Sæberg

Í áðurnefndi grein er komið inn á líkindin með störfum þingmanna og kennara. Vinnutími stéttanna er svipaður, leyfin eru svipuð að lengd og starfstími Alþingis er álíka eða heldur styttri en starfstími skóla. Þingmenn vinna oft fram eftir á kvöldin og á helgum dögum á starfstíma þingsins. Kennarar vinna líka heima hjá sér á kvöldin og um helgar og nemendur eða foreldrar hringja jafnvel um nótt.

Hver eru næstu skref?

Aðrir kennarar tóku einnig til máls en allir voru sammála um að launin yrðu að endurspegla námið. Samkvæmt trúnaðarmönnum hefur enginn kennari í Mosfellsbæ sagt upp störfum enn. Kennarar ræða það ekki vegna þess að þeir vilji hætta, heldur vegna þess að þeir hafi ekki efni á því að halda áfram að kenna.

Hugmyndir voru ræddar um hvað væri hægt að gera. Ættu kennarar að halda áfram að fara fyrr, líkt og í dag, eða gera eitthvað annað? Einnig kom til tals að mæta seinna til vinnu á morgnana og hugmynd var varpað fram þess efnis að hætta að nota stimpilklukkuna. Eitt voru þó allir sammála um; kennararnir yrðu að gera það sem gert væri á landsvísu. Þannig væru kennararnir sterkastir.

Einnig fundað í Hafnarfirði

Kennarar í Hafnarfirði voru með samráðsfund í Flensborgarskóla eftir að hafa gengið úr störfum sínum þriðjudaginn 22. nóvember kl. 13.30. Upp í ræðupúlt komu kennarar úr öllum grunnskólum Hafnarfjarðar og lýstu þar áhyggjum og vangaveltum tengdum kennarastarfinu.

Kennarar eru sammála um að vilja vera metnir að verðleikum fyrir störf sín. Laun eiga að vera í samræmi við ábyrgð og menntun. Skólastarf hefst að hausti og þá á jafnvel enn eftir að manna sumar stöður innan skólanna þar sem nýliðun er lítil sem engin. Kennarar í Hafnarfirði lýsa yfir áhyggjum um þróun mála og hvetja samningsaðila til að semja sem fyrst. Að öðrum kosti er hætt við hrinu uppsagna innan Hafnarfjarðarbæjar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert